REGLUR
um starfsemi Endurupptökudóms

 

1. gr.

Frumrit skriflegrar beiðni um endurupptöku, ásamt þeim gögnum sem beiðnin styðst við, skal afhenda Endurupptökudómi í einu eintaki en jafnframt skal skila beiðninni og fylgigögnum með rafrænum hætti í gegnum miðlara á heimasíðu dómsins.

Þegar beiðni og gögn hafa borist með framangreindum hætti telst mál þingfest fyrir Endurupptökudómi og verður úthlutað til dómara.

Eftir úthlutun máls til dómara sendir dómurinn endurupptökubeiðanda upplýsingar um skipan dómsins með sannanlegum hætti og gefur honum tveggja vikna frest til að gera skriflegar athugasemdir við hæfi dómara. Séu gerðar athugasemdir skal afhenda þær Endurupptökudómi með rafrænum hætti í gegnum miðlara á heimasíðu dómsins, enda verði dóminum afhent frumrit þeirra án ástæðulauss dráttar. Berist ekki svar frá endurupptökubeiðanda innan frestsins skal litið svo á að hann geri ekki athugasemdir við skipan dómsins.

Um skipan verjanda fyrir Endurupptökudómi fer eftir ákvæðum 1. mgr. 230. gr. laga nr. 88/2008.

2. gr.

Í endurupptökubeiðni skal greina:

a. Nöfn endurupptökubeiðanda og gagnaðila hans, kennitölu og heimili eða dvalarstað, svo og nöfn fyrirsvarsmanna þeirra, ef því er að skipta, stöðu þeirra og heimili eða dvalarstað. Jafnframt skal gefa upp netfang þar sem endurupptökubeiðandi ætlar að gagnaðili taki við samskiptum og gögnum frá Endurupptökudómi.

b. Hver fari með málið fyrir hönd endurupptökubeiðanda og, sé um sakamál að ræða, hvort endurupptökubeiðandi óski eftir því að sér verði skipaður verjandi. Jafnframt skal gefa upp netfang þar sem tekið er við samskiptum og gögnum frá Endurupptökudómi.

c. Þann dóm sem endurupptökubeiðni beinist að, hvort áður hafi verið óskað eftir endurupptöku dómsins og, ef við á, hvort áfrýjunarfrestur vegna dómsins sé liðinn eða hvort Hæstiréttur hafi synjað um áfrýjunarleyfi. Jafnframt skal koma fram hvort dómurinn hefur verið fullnustaður og hvernig það hefur verið gert.

d. Kröfur endurupptökubeiðanda. Tilgreina skal hvort endurupptökubeiðandi krefjist þess, sé fallist á endurupptöku, að Endurupptökudómur kveði á um að áhrif fyrri dóms falli niður í heild eða að hluta á meðan málið er rekið. Varði endurupptökubeiðni sakamál skal jafnframt tilgreina hvort endurupptökubeiðandi óski eftir því að réttaráhrifum dóms sé frestað á meðan endurupptökubeiðni er til meðferðar fyrir Endurupptökudómi.

e. Ástæður sem endurupptökubeiðni er reist á. Lýsing þeirra skal vera ítarleg en gagnorð og svo skýr að ekki fari á milli mála á hverju beiðnin sé reist. Hafi áður verið óskað endurupptöku þess dóms sem endurupptökubeiðni beinist að skal gera grein fyrir því hvaða ný gögn eða upplýsingar hafi komið fram eftir að leyst var úr fyrri beiðni.

f. Gögn sem endurupptökubeiðandi leggur fram til stuðnings beiðni sinni. Varði endurupptökubeiðni sakamál skal taka fram hvort endurupptökubeiðandi óski eftir því að aflað verði gagna fyrir Endurupptökudómi. Rökstyðja skal hvers vegna hann telur þörf á slíkri gagnaöflun í málinu og hvað eigi að leiða í ljós með henni.

g. Hvort endurupptökubeiðandi óski eftir munnlegri málsmeðferð fyrir Endurupptökudómi. Sé óskað munnlegrar sönnunarfærslu skal rökstyðja hvers vegna endurupptökubeiðandi telur hennar þörf og hvað eigi að leiða í ljós með henni.

 

3. gr.

Að liðnum fresti samkvæmt 3. mgr. 1 gr. reglna þessara tekur Endurupptökudómur afstöðu til þess hvort endurupptökubeiðni verði tekin til frekari meðferðar fyrir dóminum. Frekari málsmeðferð fer ekki fram ef beiðni er hafnað þegar í stað á þeim grundvelli að hún teljist bersýnilega ekki á rökum reist, sbr. 2. mgr. 192. gr. laga nr. 91/1991 eða 3. mgr. 229. gr. laga nr. 88/2008.

Ef beiðni um endurupptöku er ekki hafnað þegar í stað sendir Endurupptökudómur beiðnina og þau gögn sem henni fylgdu til gagnaðila með sannanlegum hætti og gefur honum tiltekinn frest til að skila skriflegri greinargerð.

Berist Endurupptökudómi ekki greinargerð gagnaðila innan þess frests sem honum hefur verið gefinn í því skyni skal litið svo á að hann krefjist þess að endurupptökubeiðni sé hafnað. Í þeim tilvikum sem ríkissaksóknari beiðist endurupptöku máls til hagsbóta fyrir dómfellda samkvæmt 4. mgr. 228. gr. laga nr. 88/2008 skal þó litið svo á að gagnaðili krefjist þess að beiðnin verði samþykkt. Skal málið þá tekið til úrskurðar, en fyrst skal þó veita endurupptökubeiðanda skamman frest til að leggja fram frekari gögn til stuðnings beiðni sinni.

 

4. gr.

Í greinargerð gagnaðila skal greina:

a. Hver fari með málið fyrir hönd gagnaðila og, hafi hann verið ákærður eða dómfelldur í sakamáli, hvort hann óski eftir því að sér verði skipaður verjandi. Jafnframt skal gefa upp netfang þar sem tekið er við samskiptum og gögnum frá Endurupptökudómi.

b. Athugasemdir gagnaðila við skipan dómsins ef einhverjar eru.

c. Kröfur gagnaðila, þar með talið hvort gagnaðili krefjist þess, verði fallist á endurupptökubeiðni, að Endurupptökudómur kveði á um að fyrri dómur haldi réttaráhrifum sínum í heild eða að hluta á meðan málið er rekið. Ef við á skal jafnframt greina frá afstöðu gagnaðila til óskar endurupptökubeiðanda um að réttaráhrifum dóms sé frestað á meðan endurupptökubeiðni er til meðferðar fyrir Endurupptökudómi.

d. Viðhorf gagnaðila til endurupptökubeiðni, sem skal sett fram með gagnorðum og svo skýrum hætti að ekki fari á milli mála á hverju hann byggi.

e. Gögn sem gagnaðili leggur fram. Hafi gagnaðili verið ákærður eða dómfelldur í sakamáli skal taka fram hvort hann krefjist þess að aflað verði gagna fyrir Endurupptökudómi. Rökstyðja skal hvers vegna hann telur þörf á slíkri gagnaöflun í málinu og hvað eigi að leiða í ljós með henni.

g. Hvort gagnaðili óski eftir munnlegri málsmeðferð fyrir Endurupptökudómi. Sé óskað munnlegrar sönnunarfærslu skal rökstyðja hvers vegna gagnaðili telur hennar þörf og hvað eigi að leiða í ljós með henni.

Greinargerð gagnaðila, ásamt þeim gögnum sem hann leggur fram, skal afhenda Endurupptökudómi með þeim hætti sem greinir í 3. mgr. 1. gr. reglna þessara.

 

5. gr.

Málsmeðferð fyrir Endurupptökudómi er að jafnaði skrifleg. Í þeim tilvikum gefur Endurupptökudómur endurupptökubeiðanda með sannanlegum hætti kost á því innan tiltekins frests að afhenda dóminum skriflegar athugasemdir, sem feli í sér stutt andsvör við greinargerð gagnaðila, ásamt frekari gögnum eftir þörfum. Komi slíkar athugasemdir og gögn fram af hálfu endurupptökubeiðanda veitir dómurinn gagnaðila með sama hætti kost á að bregðast skriflega við þeim með stuttum andsvörum og frekari gögnum eftir þörfum. Andsvör og frekari gögn skal afhenda Endurupptökudómi með þeim hætti sem greinir í 3. mgr. 1. gr. reglna þessara.

Að liðnum frestum samkvæmt 1. mgr. þessarar greinar getur Endurupptökudómur lagt úrskurð á málið.

Ákveði Endurupptökudómur, að fram kominni greinargerð gagnaðila, að málsmeðferð verði munnleg fer um hana eftir ákvæðum XXV. kafla laga nr. 91/1991 eða XXXI. kafla laga nr. 88/2008 eftir því sem við á.

 

6. gr.

Við Endurupptökudóm skal haldin þingbók og úrskurðabók í samræmi við ákvæði 11. og 12. gr. laga nr. 91/1991 og 13. og 14. gr. laga nr. 88/2008.

Komi fram krafa um að einn eða fleiri dómarar víki sæti tekur Endurupptökudómur afstöðu til hennar með úrskurði. Að fram kominni slíkri kröfu skal með sannanlegum hætti gefa endurupptökubeiðanda eða gagnaðila færi á að afhenda dóminum innan tiltekins frests athugasemdir sínar um það efni með þeim hætti sem greinir í 3. mgr. 1. gr. reglna þessara. Að því loknu verður málefnið tekið til úrskurðar.

Komi fram krafa um að endurupptökubeiðandi í einkamáli setji tryggingu fyrir greiðslu málskostnaðar skal farið með slíka kröfu samkvæmt 2. mgr. þessarar greinar.

Taki Endurupptökudómur ákvörðun um að réttaráhrifum dóms í sakamáli sé frestað meðan á meðferð endurupptökubeiðni stendur skal það að jafnaði fyrst gert að liðnum fresti gagnaðila til að skila greinargerð samkvæmt 4. gr. reglna þessara.

Eftir því sem taka þarf að öðru leyti afstöðu til atriða fyrir Endurupptökudómi, svo sem varðandi rekstur máls, er þeim ráðið til lykta með ákvörðun. Minni háttar ákvarðanir getur dómsformaður tekið einn. Ákvarðanir Endurupptökudóms verða ekki rökstuddar sérstaklega en um efni þeirra skal getið í þingbók eftir þörfum. Þær skulu tilkynntar aðilum með sannanlegum hætti.

 

7. gr.

Endurupptökudómur kveður upp úrskurð um það hvort mál verði endurupptekið eða hvort endurupptökubeiðni verði hafnað. Sé máli vísað frá Endurupptökudómi skal það jafnframt gert með úrskurði.

Um úrskurði Endurupptökudóms gilda eftir því sem við eiga ákvæði 114. gr. laga nr. 91/1991 og 183. gr. laga nr. 88/2008. Ákveði dómurinn að sakamál skuli endurupptekið en að réttaráhrif dóms skuli þrátt fyrir það haldast þar til nýr dómur hefur verið kveðinn upp, sbr. 1. mgr. 231. gr. laga nr. 88/2008, skal taka það fram í úrskurðarorði. Fallist dómurinn á endurupptökubeiðni í einkamáli skal taka fram í úrskurðarorði hvort og að hvaða leyti réttaráhrif fyrri dóms falli niður þar til nýr dómur hefur verið kveðinn upp, sbr. 5. mgr. 192. gr. laga nr. 91/1991.

 

8. gr.

Um heimild til að fara með mál fyrir Endurupptökudómi fer eftir 2. gr. og 31. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn.

 

9. gr.

Úrskurðir Endurupptökudóms skulu birtir á vefsíðu dómsins. Um birtingu úrskurða Endurupptökudóms fer eftir reglum stjórnar dómstólasýslunnar, sem settar eru á grundvelli ákvæða í lögum um dómstóla.

 

10. gr.

Reglur þessar eru settar samkvæmt heimild í 7. mgr. 192. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála og 7. mgr. 231. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála og öðlast þegar gildi

 

Endurupptökudómi, 24. mars 2022

    

                     Karl Axelsson.                                                Oddný M. Arnardóttir                                               Eyvindur G. Gunnarsson

                                Hólmfríður Grímsdóttir.                                                                                        Jóhannes K. Sveinsson