Endurupptökudómur Úrskurður föstudaginn 12. desember 2025 í máli nr. 5/2025 Endurupptökubeiðni Vilhelms Norðfjörð Sigurðssonar 1.Dómararnir Eiríkur Elís Þorláksson, Hildur Briem og Stefán Geir Þórisson kveða upp úrskurð í máli þessu. 2.Með beiðni sem barst Endurupptökudómi 22. september 2025 krafðist endurupptökubeiðandi, Vilhelm Norðfjörð Sigurðsson, […], Reykjavík, endurupptöku á máli nr. 190/2024: Ákæruvaldið gegn Vilhelm Norðfjörð Sigurðssyni, sem dæmt var í Landsrétti 12. desember 2024. Endurupptökubeiðandi krefst þess enn fremur að réttaráhrifum dóms Landsréttar verði frestað á meðan beiðnin er til meðferðar hjá Endurupptökudómi. Þá krefst endurupptökubeiðandi málskostnaðar fyrir Endurupptökudómi. 3.Gagnaðili, ríkissaksóknari, telur að ekki séu efni til að verða við beiðni endurupptökubeiðanda. 4.Við meðferð málsins var Stefán Karl Kristjánsson lögmaður skipaður verjandi endurupptökubeiðanda. Endurupptökudómur hafnaði kröfu endurupptökubeiðanda um frestun réttaráhrifa dóms Landsréttar með ákvörðun 2. október 2025. Gagnaöflun lauk í málinu 3. desember 2025. Málsatvik 5.Héraðssaksóknari höfðaði sakamál á hendur endurupptökubeiðanda með ákæru 6. júlí 2023 fyrir brot í nánu sambandi, kynferðisbrot og húsbrot í þremur liðum. Í meginatriðum var endurupptökubeiðanda gefið að sök að hafa á tilgreindum dögum í janúar árið 2022 farið heimildarlaust inn á heimili brotaþola og ekki farið þaðan þrátt fyrir að hún bæði hann ítrekað um það. Þá var honum í 1. lið ákæru gefið að sök nauðgun með því að hafa haft samræði við brotaþola 1. janúar 2022 gegn vilja hennar. Í 2. lið ákæru var endurupptökubeiðanda gefið að sök að hafa 12. janúar 2022 tekið í hár brotaþola, gripið um hendur hennar og snúið upp á þær, í tvígang slegið hana í rassinn og hótað henni með nánar tilgreindum ummælum. Í 3. lið ákæru var endurupptökubeiðanda loks gefið að sök að hafa 13. janúar 2022 slegið brotaþola einu höggi með flötum lófa á vinstri kinn með þeim afleiðingum að hún hlaut þar roða. 6.Endurupptökubeiðandi hefur frá upphafi neitað sakargiftum samkvæmt 1. lið ákæru. Hann játaði á hinn bóginn þá háttsemi sem greindi í 2. lið ákæru eftir að ákæruvaldið féll frá þeirri lýsingu í þeim ákærulið að endurupptökubeiðandi hefði farið á heimili brotaþola í heimildarleysi. Þá játaði endurupptökubeiðandi sakargiftir samkvæmt 3. lið ákæru að öðru leyti en því að hann neitaði að hafa slegið brotaþola. 7.Með dómi Héraðsdóms Norðurlands eystra 31. janúar 2024 var endurupptökubeiðandi sakfelldur samkvæmt öllum liðum ákæru eins og hún var eftir framangreinda breytingu. Refsing hans var ákveðin fimm ára fangelsi. Þá var honum gert að greiða brotaþola 2.000.000 króna í ENDURUPPTÖKUDÓMUR NR. 5/2025 - 2 - miskabætur með nánar tilgreindum vöxtum. Loks var honum gert að greiða allan sakarkostnað. Voru brot endurupptökubeiðanda heimfærð til 194. gr. og 1. mgr. 218. gr. b almennra hegningarlaga nr. 19/1940 en ekki var fallist á heimfærslu til 2. mgr. 218. gr. b og 231. gr. laganna svo sem héraðssaksóknari hafði krafist. 8.Gagnaðili skaut málinu til Landsréttar 16. febrúar 2024 í samræmi við yfirlýsingu endurupptökubeiðanda um áfrýjun. Með dómi 12. desember 2024 í máli nr. 190/2024 staðfesti Landsréttur dóm héraðsdóms um sakfellingu endurupptökubeiðanda, refsingu hans og sakarkostnað. Þá hækkaði Landsréttur bætur til brotaþola í 3.000.000 króna með nánar tilgreindum vöxtum. Í niðurstöðu Landsréttar var sakfelling endurupptökubeiðanda staðfest með vísan til forsendna héraðsdóms. Háttsemi endurupptökubeiðanda var heimfærð til 231. gr. almennra hegningarlaga. Þá var brot endurupptökubeiðanda samkvæmt 1. lið ákæru heimfært undir 1. mgr., sbr. 2. mgr. 218. gr. b almennra hegningarlaga. Að öðru leyti var heimfærsla héraðsdóms til refsiákvæða staðfest. 9.Með ákvörðun Hæstaréttar 31. mars 2025 nr. 2025-36 var beiðni endurupptökubeiðanda um áfrýjunarleyfi hafnað. Rökstuðningur málsaðila Rökstuðningur endurupptökubeiðanda 10.Endurupptökubeiðandi byggir kröfu sína um endurupptöku á c- og d-liðum 1. mgr. 228. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, sbr. 232. gr. sömu laga. 11.Í fyrsta lagi er vísað til þess að rannsóknarlögreglumanni, sem hafi annast rannsókn máls endurupptökubeiðanda, hafi verið vikið úr starfi vegna meintra brota, meðal annars gegn reglum um réttláta málsmeðferð og hlutleysi. Vankantar á störfum hans hafi komið fram í öðrum málum og gefi tilefni til að ætla að rannsókn í máli endurupptökubeiðanda hafi einnig verið ábótavant. Endurupptökubeiðandi telur að vegna þessa hafi verið verulegir gallar á málsmeðferð í máli sínu, sbr. d-lið 1. mgr. 228. gr. laga nr. 88/2008. 12.Í öðru lagi reisir endurupptökubeiðandi kröfu sína um endurupptöku á því að brotið hafi verið gegn grundvallarreglum sakamálaréttarfars, sérstaklega rannsóknarreglunni, sbr. 1. mgr. 53. gr. laga nr. 88/2008. Ekki hafi verið gætt hlutleysis við gagnaöflun í máli endurupptökubeiðanda, sönnunargögn sem hefðu getað létt undir með honum hafi ekki verið rannsökuð og yfirlýsingar vitna hafi verið metnar einhliða. Þannig hafi ekki verið litið til fyrstu skýrslu af brotaþola en í henni hafi hvergi komið fram að kynmök hafi átt sér stað 1. janúar 2022. Stuðst hafi verið við síðari skýrslutöku eftir að endurupptökubeiðandi hafði sjálfviljugur lýst því að kynmök hafi átt sér stað milli hans og brotaþola. Brotaþoli hafi enn fremur, samkvæmt skýrslutöku fyrir dómi, ekki litið á samræðið sem nauðgun. Endurupptökubeiðandi vísar í beiðni sinni til þess að brot á rannsóknarreglunni geti talist verulegur galli á málsmeðferð og þar með grundvöllur endurupptöku, sbr. d-lið 1. mgr. 228. gr. laga nr. 88/2008. 13.Þá vísar endurupptökubeiðandi til þess að ósamræmi hafi verið í vitnisburði brotaþola og ýmis atriði hafi dregið úr trúverðugleika hennar. Í myndbandsupptöku, sem sakfelling hafi byggst á, megi greina hljóð og orðaskipti milli endurupptökubeiðanda og brotaþola sem hafi stutt sýknukröfu hans en dómari hafi metið það svo að hann hefði átt að gera sér grein fyrir því að brotaþoli vildi ekki stunda kynlíf með honum. Dómur virðist hafa byggst á því að á upptökum hafi mátt heyra brotaþola ENDURUPPTÖKUDÓMUR NR. 5/2025 - 3 - segja við endurupptökubeiðanda í nokkur skipti „að drulla sér út“. Þótt líta megi svo á að slíkar fullyrðingar gefi til kynna hug brotaþola til endurupptökubeiðanda sé ýmislegt sem mæli gegn þeirri niðurstöðu en dómari hafi virt það að vettugi. Í málsgögnum sé tekið fram að greina megi kynlífshljóð á upptöku eftir að endurupptökubeiðandi og brotaþoli hafi fært sig úr baðherbergi yfir í svefnherbergi. Brotaþoli hafi ekki verið færð þangað tilneydd heldur farið þangað sjálfviljug þar sem hún hafi lagst í rúm. Því sé ekkert sem styðji það að endurupptökubeiðandi hafi átt að geta gert sér grein fyrir viljaleysi brotaþola, enda heyrist ekki í henni neita, streitast á móti eða lýsa yfir óánægju sinni yfir atburðarrásinni. Rangt mat á sönnunargögnum geti verið grundvöllur endurupptöku ef verulegar líkur eru leiddar að því að það hafi haft áhrif á niðurstöðu málsins, sbr. c-lið 1. mgr. 228. gr. laga nr. 88/2008. Sé sýnt fram á að vitni hafi vísvitandi borið rangt um fyrir dómi geti það fallið undir b-lið málsgreinarinnar. 14.Þá kveðst endurupptökubeiðandi krefjast endurskoðunar á myndbandsupptöku þar sem meint kynlífshljóð gefi til kynna samþykki brotaþola. Krafan varði sönnunarmatið og falli undir c-lið 1. mgr. 228. gr. laga nr. 88/2008. Mikilvægt sé að dómari meti sönnunargildi allra framlagðra gagna, þar á meðal myndbandsupptaka, sbr. 109. gr. laganna. Hafi sönnunargildi upptökunnar verið rangt metið geti það réttlætt endurupptöku. 15.Endurupptökubeiðandi hefur einnig bent á að þegar horft sé á upptökuna frá 1. janúar 2022 sé rétt að hafa í huga nokkur atriði sem lúti að tengslum hans við brotaþola. Þau hafi verið í sambandi og samskipti þeirra hafi haldið áfram þegar endurupptökubeiðandi afplánaði dóm í eldra máli. Þeirri afplánun hafi lokið í desember 2021. Þá vísar endurupptökubeiðandi til þess að af upptökunni frá 1. janúar 2022 megi ráða að þau hafi farið saman inn á salerni íbúðar brotaþola og þar hafi kynlíf þeirra hafist og verið framhaldið í rúmi í herbergi íbúðarinnar. Á upptökunni heyrist vel kynlífshljóð og ekkert bendi til annars en að þau hafi að jöfnu tekið þátt. Þá lýsir endurupptökubeiðandi því að lögregla hafi 12. janúar 2022 haft afskipti af honum á heimili brotaþola. Brotaþoli hafi lagt fram kæru vegna ofbeldis 13. janúar sama ár. Tekin hafi verið skýrsla af honum 14. janúar þar sem hann hafi upplýst að eigin frumkvæði að hann og brotaþoli hafi stundað kynlíf 1. janúar. Brotaþoli hafi gefið skýrslu 23. mars 2022 og sagt aðspurð um kynlíf þeirra að stundum væri betra að segja já við endurupptökubeiðanda, hann skilji ekki mörk annarra og virði þau ekki. Hún hafi látið undan með því að kyssa endurupptökubeiðanda og þau síðan endað með að sofa saman. Hún hafi sagt honum að hún vildi það ekki en látið það yfir sig ganga. Rökstuðningur gagnaðila 16.Ríkissaksóknari byggir á því að endurupptökubeiðandi hafi ekki gert grein fyrir því hvort og þá með hvaða hætti háttsemi fyrrverandi rannsóknarlögreglumanns við rannsókn málsins eigi að leiða til þess að verulegir gallar hafi verið á meðferð þess þannig að d-liður 1. mgr. 228. gr. laga nr. 88/2008 komi til álita. Ágallar á málsmeðferð verði að hafa haft áhrif á efnislega niðurstöðu málsins til að réttlæta endurupptöku. Um það sé ekki að ræða í málinu og heldur engin grein gerð fyrir þessu atriði í endurupptökubeiðni. 17.Þá sé mótmælt þeirri málsástæðu endurupptökubeiðanda sem lúti að því að rangt mat á sönnunargögnum í dómi Landsréttar geti leitt til endurupptöku málsins á grundvelli c-liðar 1. mgr. 228. gr. laga nr. 88/2008, enda hafi endurupptökubeiðandi ekki leitt verulegar líkur að því að sönnunargögn hafi verið ranglega metin. Endurupptökubeiðandi sé í raun að fara fram á að Endurupptökudómur endurmeti sönnunargildi munnlegs framburðar hans og vitna sem ekki sé hlutverk dómsins. ENDURUPPTÖKUDÓMUR NR. 5/2025 - 4 - Niðurstaða 18.Samkvæmt d-lið 1. mgr. 228. gr., sbr. 1. mgr. 232. gr., laga nr. 88/2008 stendur heimild til þess að Endurupptökudómur verði við beiðni manns, sem telur sig ranglega sakfelldan, sakfelldan fyrir mun meira brot en það sem hann hefur framið eða telur refsingu bersýnilega ranglega ákvarðaða, um að málið verði endurupptekið fyrir Landsrétti ef verulegir gallar hafa verið á meðferð máls þannig að áhrif hafi á niðurstöðu þess. Endurupptökubeiðandi vísar til þess að rannsóknarlögreglumanni, sem annaðist rannsókn máls hans, hafi verið vikið úr starfi vegna „alvarlegra vankanta í störfum lögreglumannsins“ og hafi ástæða brottvikningarinnar verið meðal annars brot hans á reglum um réttláta málsmeðferð og hlutleysi. Þá tiltekur endurupptökubeiðandi að nefndir vankantar hafi komið fram í öðrum málum og gefi „tilefni til að ætla að rannsóknin í máli [ákæruvaldsins gegn endurupptökubeiðanda] hafi einnig verið ábótavant.“ Í máli þessu liggur ekkert fyrir um framangreinda brottvikningu lögreglumanns úr starfi eða ástæður hennar. Þá hefur endurupptökubeiðandi ekki fært nein gild rök fyrir því að gallar hafi verið á meðferð hans máls vegna þeirrar brottvikningar. Hefur hann raunar sem fyrr segir byggt á því að ætluð háttsemi umrædds rannsóknarlögreglumanns hafi átt sér stað í öðrum málum. Hafa því ekki verið færð haldbær rök fyrir því að fullnægt sé skilyrðum fyrir því að gallar hafi verið á meðferð máls þess sem hér um ræðir vegna þessa, hvað þá að slíkir gallar hafi haft áhrif á niðurstöðu málsins. Verður því ekki fallist á endurupptöku málsins á þessum grundvelli. 19.Endurupptökubeiðandi vísar jafnframt til þess að brotið hafi verið gegn rannsóknarreglu sakamálaréttarfars, sem og að ósamræmi hafi verið í framburði brotaþola hvað varðar sakargiftir samkvæmt 1. lið ákæru. Þá hafi innihald myndbandsupptöku af brotavettvangi verið rangt metið. Vísar endurupptökubeiðandi í þessum efnum til þess að ekki hafi verið litið til fyrstu skýrslu sem brotaþoli gaf hjá lögreglu en þar hafi ekki komið fram að kynmök milli hennar og endurupptökubeiðanda hafi átt sér stað. Litið hafi verið til skýrslu sem hún gaf síðar og hafi þar komið fram að brotaþoli hafi aldrei litið á samræðið sem nauðgun. Endurupptökubeiðandi vísar einnig til þess að myndbandsupptaka af vettvangi styðji sýknukröfu hans, enda dyljist ekki að fullt samþykki hafi verið fyrir umræddum kynmökum. Endurupptökubeiðandi byggir hvað þetta varðar á því að skilyrðum c- og d-liðar 228. gr. laga nr. 88/2008 sé fullnægt. 20.Á grundvelli c-liðar 1. mgr. 228. gr. laga nr. 88/2008 er heimilt að endurupptaka mál ef verulegar líkur eru leiddar að því að sönnunargögn sem færð voru fram í máli hafi verið rangt metin svo að áhrif hafi haft á niðurstöðu þess. Reglan felur að ákveðnu leyti í sér heimild Endurupptökudóms til endurmats á sönnunaratriðum hinna almennu dómstóla. Ljóst er hins vegar að ákvæðinu verður aðeins beitt við sérstakar aðstæður. Er í þeim efnum til þess að líta að ákvæðið felur í sér, eins og önnur ákvæði laga nr. 88/2008 um endurupptöku, undantekningu frá meginreglunni um skuldbindingargildi dóma sem er að finna í 186. gr. laganna. Þá ber orðalag ákvæðisins með sér að umtalsvert þurfi til að koma svo ákvæðinu verði beitt. 21.Endurupptökubeiðandi var sem fyrr greinir sakfelldur bæði í héraði og fyrir Landsrétti fyrir að nauðga brotaþola á heimili hennar 1. janúar 2022. Í dómi Landsréttar var um sakfellingu hans vísað til forsendna héraðsdóms. Af forsendum héraðsdóms fyrir niðurstöðunni verður ráðið að sakfellingin hafi byggst á sönnunarmati á upptöku úr öryggismyndavél á heimili brotaþola 1. janúar 2022 og framburðum endurupptökubeiðanda og brotaþola. Í dóminum eru samskipti þeirra ítarlega rakin með vísan til upptökunnar. Er þess getið að brotaþoli hafi með orðum sínum gert endurupptökubeiðanda það ljóst að hún vildi hann af heimili sínu og að hún vildi ekkert með hann hafa. Endurupptökubeiðandi hafi hins vegar gefið það skýrt til kynna að hann hygðist ekki virða ENDURUPPTÖKUDÓMUR NR. 5/2025 - 5 - höfnun hennar og meðal annars talað um að hún ætti skilið að vera lamin og að hann ætti hana. Hafi það einnig mátt ráða af síðari samskiptum þeirra á upptöku frá heimili brotaþola 12. janúar 2022 en þá hafi hann lagt hendur á hana. Í niðurlagi rökstuðnings héraðsdóms kemur fram það álit dómsins að endurupptökubeiðandi hafi ekki haft réttmæta ástæðu til að ætla að brotaþoli hafi, þegar hún loks lét undan, veitt samþykki fyrir kynmökum af fúsum og frjálsum vilja heldur hafi honum hlotið að vera ljóst að svo væri ekki. Væri því komin fram sönnun þess að endurupptökubeiðandi hafi gerst sekur um þá háttsemi sem greindi í 1. ákærulið. 22.Samkvæmt framangreindu hafa dómstólar komist að rökstuddri niðurstöðu um sakfellingu endurupptökubeiðanda. Byggði sú sakfelling á heildstæðu mati, einkum upptöku af atburðum 1. janúar 2022 og framburðum endurupptökubeiðanda og brotaþola. Var sérstaklega vikið að því að framburður brotaþola teldist trúverðugur um það að hún hafi látið undan endurupptökubeiðanda og haft kynmök við hann án þess að vilja það því hún óttaðist að ella gæti hún lent í einhverju enn verra. Mat dómstóla á sakfellingu byggði á frjálsu mati þeirra, sbr. 109. gr. laga nr. 88/2008, og verður ekki ráðið af gögnum málsins, þar á meðal upptökunni frá 1. janúar 2022, að það mat hafi verið haldið annmörkum. 23.Endurupptökubeiðandi hefur vísað til þess að ekki hafi verið horft til upphaflegs framburðar brotaþola hjá lögreglu 13. janúar 2022 en hún hafi á þeim tíma ekki minnst á þá nauðgun sem hann var síðar dæmdur fyrir. Hún hafi fyrst nefnt að samfarir hafi átt sér stað í skýrslutöku 23. mars sama ár. Í héraðsdómi, sem samkvæmt framangreindu var staðfestur með vísan til forsendna í Landsrétti, var vikið að þessu atriði. Kemur fram að brotaþoli hafi í framburði sínum fyrir dómi vísað til þess að hún hafi upplifað háttsemi endurupptökubeiðanda sem ofbeldi en ekki litið á hana sem nauðgun því að í hennar huga væri það „eitthvað brútal sjitt“. Hafi brotaþoli því virst telja að ekki væri um nauðgun að ræða nema einnig væri beitt öðru líkamlegu ofbeldi eða aflsmunum. Það hafi verið ástæða fyrir því að hún hafi ekki skýrt lögreglu frá þessu atviki við upphaf rannsóknarinnar. Í dóminum segir að þessi villa brotaþola um hugtakið nauðgun breyti engu um refsinæmi háttsemi endurupptökubeiðanda. Með sama hætti og á við um sönnunarmatið hvað varðar háttsemi endurupptökubeiðanda samkvæmt framangreindu hefur verið lagt sjálfstætt mat á þýðingu þessa atriðis á grundvelli framburðar brotaþola fyrir dómi. Í héraðsdómi var litið til framburðar brotaþola um skýringar á því af hverju hún gat ekki um samfarir hennar og endurupptökubeiðanda í fyrstu skýrslutöku málsins. Ekki verður heldur fallist á að annmarkar hafi verið á mati á þýðingu framburðarins að þessu leyti. Þá er til þess að líta að samkvæmt 1. mgr. 111. gr. laga nr. 88/2008 skal dómur reistur á sönnunargögnum sem færð eru fram við meðferð máls fyrir dómi. 24.Með vísan til framangreinds verður ekki fallist á að endurupptökubeiðandi hafi leitt verulegar líkur að því að sönnunargögn sem færð voru fram í málinu hafi verið rangt metin svo að áhrif hafi haft á niðurstöðu þess, sbr. skilyrði c-liðar 1. mgr. 228. gr. laga nr. 88/2008. Þá er því hafnað að verulegir gallar hafi verið á meðferð málsins, sbr. d-lið ákvæðisins. Loks verður ekki talið að skilyrði annarra stafliða málsgreinarinnar fyrir endurupptöku séu fyrir hendi með vísan til framangreinds. Beiðni um endurupptöku á máli Landsréttar nr. 190/2024 er því hafnað. 25.Endurupptökubeiðanda verður gert að greiða verjanda sínum þóknun sem telst hæfilega ákveðin að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í úrskurðarorði greinir. ENDURUPPTÖKUDÓMUR NR. 5/2025 - 6 - Úrskurðarorð: Beiðni endurupptökubeiðanda, Vilhelms Norðfjörð Sigurðssonar, um endurupptöku á máli nr. 190/2024 sem dæmt var í Landsrétti 12. desember 2024 er hafnað. Endurupptökubeiðandi greiði þóknun skipaðs verjanda síns, Stefáns Karls Kristjánssonar lögmanns, 300.000 krónur.