Endurupptökudómur Úrskurður miðvikudaginn 12. mars 2025 í máli nr. 6/2024 Endurupptökubeiðni X 1.Dómararnir Jónas Þór Guðmundsson, Karl Axelsson og Stefán Geir Þórisson kveða upp úrskurð í máli þessu. 2.Með beiðni sem barst Endurupptökudómi 18. nóvember 2024 fór endurupptökubeiðandi, X, […], Reykjavík, fram á endurupptöku á máli nr. 25/2018, ákæruvaldið gegn X, sem dæmt var í Landsrétti 12. október 2018. Þá krefst endurupptökubeiðandi málskostnaðar fyrir Endurupptökudómi. 3.Gagnaðili, ríkissaksóknari, telur ekki einsýnt að efni séu til að verða við beiðni endurupptökubeiðanda. Gagnaöflun í málinu lauk 3. febrúar 2025. Málsatvik 4.Endurupptökubeiðandi krefst þess að mál nr. 25/2018, sem lauk með dómi Landsréttar 12. október 2018, verði endurupptekið. Með þeim dómi var endurupptökubeiðandi sakfelldur fyrir brot gegn 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með því að hafa hrint fyrrverandi eiginkonu sinni þannig að hún hrasaði með þeim afleiðingum að hún hlaut áverka. Einnig var hann sakfelldur fyrir brot gegn 233. gr. almennra hegningarlaga með því hafa hótað henni lífláti. Var refsing endurupptökubeiðanda ákveðin fangelsi í 45 daga en fullnustu refsingarinnar var frestað skilorðsbundið í tvö ár. Þá var honum gert að greiða sakarkostnað málsins í héraði, brotaþola miskabætur og allan áfrýjunarkostnað málsins. Dómi Landsréttar var ekki áfrýjað til Hæstaréttar. Hann mun hins vegar hafa borið málið upp við Mannréttindadómstól Evrópu á grundvelli ætlaðs brots gegn mannréttindasáttmála Evrópu. Í málinu liggur fyrir sátt hans við íslenska ríkið, dagsett 19. apríl 2021. 5.Dóm í fyrrgreindu máli endurupptökubeiðanda í Landsrétti skipuðu þrír dómarar, þar á meðal dómarinn Ásmundur Helgason. Í dómi Mannréttindadómstóls Evrópu 12. mars 2019 í máli nr. 26374/18, Guðmundur Andri Ástráðsson gegn Íslandi, var komist að þeirri niðurstöðu að íslenska ríkið hefði brotið gegn 1. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu árið 2017 við skipun dómarans Arnfríðar Einarsdóttur. Hefði skipun dómsins því ekki verið ákveðin með lögum. Íslenska ríkið skaut málinu til yfirdeildar Mannréttindadómstóls Evrópu og með dómi 1. desember 2020 staðfesti yfirdeildin fyrrgreint brot íslenska ríkisins. Rökstuðningur málsaðila Rökstuðningur endurupptökubeiðanda 6.Endurupptökubeiðandi byggir beiðni um endurupptöku á heimild 1. mgr. 232. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála og telur að uppfyllt séu skilyrði a-liðar 1. mgr. 228. gr. sömu laga ENDURUPPTÖKUDÓMUR NR. 6/2024 - 2 - um endurupptöku vegna nýrra gagna og upplýsinga sem ætla má að hefðu skipt verulega miklu fyrir niðurstöðu málsins ef þau hefðu komið fram áður en dómur gekk. 7.Endurupptökubeiðandi vísar til dóms yfirdeildar Mannréttindadómstóls Evrópu frá 1. desember 2020 þar sem staðfest hafi verið niðurstaða í máli nr. 26374/18, Guðmundur Andri Ástráðsson gegn Íslandi, vegna skipunar dómarans Arnfríðar Einarsdóttur. Af niðurstöðu yfirdeildarinnar sé ljóst að íslenska ríkið hafi með sambærilegum hætti brotið gegn 1. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu við skipun dómaranna Ásmundar Helgasonar, Jóns Finnbjörnssonar og Ragnheiðar Bragadóttur. Ásmundur Helgason sem skipað hafi dóm í máli endurupptökubeiðanda ásamt tveimur öðrum landsréttardómurum hafi ekki með réttu verið handhafi dómsvalds þegar hann dæmdi í máli hans. Dómur Landsréttar í máli nr. 25/2018 hafi því ekki verið löglega skipaður og rétturinn því ekki bær að lögum til að taka mál endurupptökubeiðanda til meðferðar og kveða upp dóm í því. 8.Endurupptökubeiðandi vísar til þess að fyrrgreindur dómur yfirdeildar mannréttindadómstólsins 1. desember 2020, yfirlýsing íslenska ríkisins 19. apríl 2021 þar sem brot á 1. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu hafi verið viðurkennt og ákvörðun Mannréttindadómstóls Evrópu frá 2. júní 2022 í máli endurupptökubeiðanda, séu ný gögn eða upplýsingar í skilningi a-liðar 1. mgr. 228. gr. laga nr. 88/2008. 9.Endurupptökubeiðandi telur því með vísan til framangreinda raka og úrskurða Endurupptökudóms í málum nr. 19/2022, 20/2022, 21/2022, 24/2022 og fleiri sambærilegra mála, bæði eldri og yngri, beri að fallast á kröfu hans um endurupptöku á landsréttarmáli nr. 25/2018 með vísan til a-liðar 1. mgr. 228. gr., sbr. 232. gr. laga nr. 88/2008. Rökstuðningur gagnaðila 10.Þrátt fyrir að fyrri úrskurðir Endurupptökudóms í málum sem varða sama atriði og endurupptökubeiðnin byggir á, svo sem úrskurðir í málum nr. 2/2021, 3/2022, 15/2022, 19-24/2022 og 8/2023, styðji þá niðurstöðu að heimila beri endurupptöku telur gagnaðili að huga þurfi að atriðum sem varða réttarvissu og bindandi réttaráhrif dóma. Líta beri þá meðal annars til hagsmuna brotaþola af því að geta treyst því að málinu hafi verið endanlega lokið þegar Landsréttur kvað upp dóm sinn á árinu 2018. Vísar gagnaðili til dóms yfirdeildar Mannréttindadómstóls Evrópu í máli nr. 26374/18 en þar hafi mannréttindadómstóllinn lagt áherslu á að sjónarmið um réttarvissu og res judicata væru þýðingarmikil og að einungis mætti víkja frá þeim við sérstakar aðstæður. Einnig var lögð áhersla á að áfelli yfir íslenska ríkinu mætti ekki skilja sem svo að ríkið þyrfti að endurupptaka öll sambærileg mál. 11.Gagnaðili bendir á að dómur Landsréttar í máli þessu hafi verið kveðinn upp 12. október 2018 eða fyrir rúmum sex árum síðan. Dómur yfirdeildar Mannréttindadómstóls Evrópu í máli nr. 26374/18 hafi verið kveðinn upp 1. desember 2020 eða fyrir rúmum fjórum árum síðan. Að mati gagnaðila hefði endurupptökubeiðanda verið í lófa lagið að setja beiðni sína um endurupptöku fram mun fyrr. 12.Gagnaðili telur afar mikilvægt að Endurupptökudómur fjalli um það hvort rétt sé að miða við einhver tímamörk frá því að dómur er kveðinn upp og þar til afstaða er tekin til beiðni um endurupptöku mála sem sprottin eru af skipun landsréttardómara vegna sjónarmiða um réttarvissu og res judicata. Í því efni verði meðal annars haft í huga hvers eðlis það brot á 6. gr. mannréttindasáttmálans er sem íslenska ríkið var dæmt fyrir með dómi í máli Guðmundar Andra Ástráðssonar gegn Íslandi. ENDURUPPTÖKUDÓMUR NR. 6/2024 - 3 - 13.Að framangreindu virtu telur gagnaðili ekki einsýnt að efni séu til að verða við beiðni endurupptökubeiðanda um endurupptöku dóms Landsréttar í máli nr. 25/2018. Andsvör endurupptökubeiðanda 14.Endurupptökubeiðandi bendir á að ákvörðun Mannréttindadómstóls Evrópu í máli hans nr. 22796/19 hafi fyrst legið fyrir 2. júní 2022 og verið tilkynnt með bréfi dagsettu 23. júní 2022. Þá fyrst hafi endurupptökubeiðandi getað tekið ákvörðun um hvort hann ætti að beiðast endurupptöku málsins. Á því tímamarki hafi hann bæði tekið út refsingu vegna málsins og greitt sakarkostnað. 15.Endurupptökubeiðandi vísar til þess að í lögum nr. 88/2008 sé ekki sett fram regla um tímafresti til endurupptöku dóms. Niðurstaða 16.Samkvæmt 1. mgr. 228. gr. laga nr. 88/2008 getur Endurupptökudómur orðið við beiðni manns sem telur sig ranglega sakfelldan, sakfelldan fyrir mun meira brot en það sem hann hefur framið eða telur refsingu bersýnilega ranglega ákvarðaða um að mál verði endurupptekið ef eitt fjögurra skilyrða sem greint er frá í a-d liðum ákvæðisins eru uppfyllt. Í málinu byggir endurupptökubeiðandi á því að skilyrði a-liðar 1. mgr. 228. gr. séu uppfyllt. Í ákvæðinu kemur fram að endurupptaka megi mál ef fram eru komin ný gögn eða upplýsingar sem ætla má að hefðu skipt verulega miklu fyrir niðurstöðu málsins ef þau hefðu komið fram áður en dómur gekk. 17.Við mat á skilyrðum samkvæmt 228. gr. laga nr. 88/2008 kemur jafnan fyrst til skoðunar hvort fullnægt sé því skilyrði að endurupptökubeiðandi telji sig ranglega sakfelldan. Skilja verður endurupptökubeiðnina svo að á því sé byggt þar sem endurupptökubeiðandi hafi að hluta neitað sök og tilteknum ákæruatriðum bæði fyrir héraðsdómi og Landsrétti og telst þetta skilyrði ákvæðisins því uppfyllt. 18.Með úrskurðum Endurupptökudóms í málum nr. 2/2021 og 15/2021 sem kveðnir voru upp 11. janúar 2022 var fallist á endurupptöku í tveimur málum þar sem svo háttaði til að einn dómara í Landsrétti var skipaður með sama hætti og fjallað er um í dómi Mannréttindadómstóls Evrópu í máli nr. 26374/18 og dómi yfirdeildar sama dómstóls þar sem viðurkennt var að brotið hefði verið gegn 1. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Sama niðurstaða varð í úrskurðum Endurupptökudóms 31. mars 2022 í máli nr. 3/2022, 10. júní 2022 í máli nr. 38/2021, 23. janúar 2023 í málum nr. 19-24/2022 og 28. september 2023 í máli nr. 8/2023. 19.Í framangreindum úrskurðum Endurupptökudóms var á því byggt að skilyrði a-liðar 1. mgr. 228. gr. laga nr. 88/2008 væru uppfyllt enda mætti gera ráð fyrir því að ef dómur mannréttindadómstólsins hefði legið fyrir áður en dómar voru kveðnir upp í málunum hefði það skipt verulega miklu máli. Með sama hætti og þar greinir telur dómurinn skilyrði til að fallast á beiðni endurupptökubeiðanda um endurupptöku á grundvelli a-liðar 1. mgr. 228. gr. laga nr. 88/2008 enda liggur fyrir að einn dómenda í máli hans í Landsrétti var skipaður með sama hætti og þeir dómarar sem um ræddi í tilvitnuðum málum. Sjónarmið gagnaðila sem varða réttarvissu og bindandi áhrif dóma auk hagsmuna brotaþola standa því ekki í vegi að fallist verði á endurupptökubeiðnina. Er þá þegar til þess að líta að í lögum nr. 88/2008 eru engir tímafrestir settir um heimildir til endurupptöku mála. Að framangreindu virtu er fallist á kröfu endurupptökubeiðanda um endurupptöku máls nr. 25/2018 sem dæmt var í Landsrétti 12. október 2018. ENDURUPPTÖKUDÓMUR NR. 6/2024 - 4 - 20.Endurupptökubeiðanda verður, í samræmi við 1. mgr. 230. gr. og 6. mgr. 231. gr. laga nr. 88/2008, ákvörðuð þóknun til handa skipuðum verjanda sínum sem ákveðin er með virðisaukaskatti eins og greinir í úrskurðarorði. Úrskurðarorð: Fallist er á beiðni X um endurupptöku á máli nr. 25/2018, ákæruvaldið gegn X, sem dæmt var í Landsrétti 12. október 2018. Þóknun skipaðs verjanda endurupptökubeiðanda, Jóhannesar Alberts Sævarssonar lögmanns, 267.840 krónur, greiðist úr ríkissjóði.