Endurupptökudómur Úrskurður mánudaginn 23. júní 2025 í máli nr. 2/2025 Endurupptökubeiðni Jóhannesar Baldurssonar 1.Dómararnir Eiríkur Elís Þorláksson, Ragnheiður Harðardóttir og Stefán Geir Þórisson kveða upp úrskurð í máli þessu. 2.Með beiðni sem barst Endurupptökudómi 19. febrúar 2025 fór endurupptökubeiðandi, Jóhannes Baldursson, […], Reykjavík, fram á endurupptöku á máli nr. 478/2014, ákæruvaldið gegn Jóhannesi Baldurssyni og fleirum, sem dæmt var í Hæstarétti 3. desember 2015. Þá krefst endurupptökubeiðandi málskostnaðar fyrir Endurupptökudómi. 3.Gagnaðili, ríkissaksóknari, telur ekki tilefni til að leggjast gegn beiðni endurupptökubeiðanda. 4.Við meðferð málsins var Reimar Pétursson lögmaður skipaður verjandi endurupptökubeiðanda. Gagnaöflun í málinu lauk 13. maí 2025. Málsatvik 5.Sérstakur saksóknari höfðaði mál á hendur endurupptökubeiðanda og þremur öðrum sakborningum með ákæru 28. júní 2013 og var ákæran í VI köflum. Með I. kafla ákæru voru endurupptökubeiðanda, sem framkvæmdastjóra markaðsviðskipta Glitnis banka hf., ásamt Elmari Svavarssyni, verðbréfamiðlara í sömu deild og Magnúsi Arnari Arngrímssyni, framkvæmdastjóra fyrirtækjasviðs bankans, gefin að sök umboðssvik samkvæmt 249. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með því að hafa, í nóvember 2007, farið út fyrir heimildir sínar til lánveitinga er þeir í sameiningu létu Glitni banka hf. veita einkahlutafélaginu BK-44 3.791.340.000 króna lán til að fjármagna að fullu kaup félagsins á 150.000.000 hlutum í bankanum án samþykkis lána- eða áhættunefndar hans og án fullnægjandi trygginga fyrir endurgreiðslu lánsins. Þá voru endurupptökubeiðanda og Elmari Svavarssyni með II. kafla ákæru gefin að sök umboðssvik með því að hafa, á nánar tilgreindu tímabili frá nóvember 2007 til júlí 2008, valdið Glitni banka hf. verulegri fjártjónshættu er þeir gerðu munnlegan samning við Birki Kristinsson, eiganda BK-44 ehf. og starfsmann einkabankaþjónustu Glitnis banka hf., um skaðleysi BK-44 ehf. af hlutabréfaviðskiptunum. Með V. kafla ákæru var endurupptökubeiðanda, ásamt Elmari Svavarssyni og Birki Kristinssyni, gefin að sök markaðsmisnotkun samkvæmt a-lið 1. töluliðar 1. mgr. og 2. mgr. 117. gr., sbr. 146. gr. þágildandi laga nr. 108/2007 um verðbréfaviðskipti fyrir að hafa ranglega látið líta svo út að BK-44 ehf. hefði lagt fé til hlutabréfakaupanna og borið af þeim fulla markaðsáhættu og þannig gefið eftirspurn eftir hlutabréfum í Glitni banka hf. ranglega og misvísandi til kynna. 6.Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 23. júní 2014 var endurupptökubeiðandi sakfelldur samkvæmt ákæru og dæmdur til fimm ára fangelsisrefsingar. Með dómi Hæstaréttar 3. desember 2015 í máli nr. 478/2014 var staðfest niðurstaða héraðsdóms um sakfellingu endurupptökubeiðanda en refsing ákveðin fangelsi í þrjú ár. ENDURUPPTÖKUDÓMUR NR. 2/2025 - 2 - Rökstuðningur málsaðila Rökstuðningur endurupptökubeiðanda 7.Endurupptökubeiðandi bendir á að Mannréttindadómstóll Evrópu hafi kveðið upp dóm 21. janúar 2025 í máli hans gegn Íslandi nr. 14175/16 þar sem komist hafi verið að þeirri niðurstöðu að með framangreindum dómi Hæstaréttar hafi verið brotið gegn rétti hans til réttlátrar málsmeðferðar fyrir dómi samkvæmt 1. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. 8.Lykilatriði í því sakamáli sem rekið var á hendur endurupptökubeiðanda hafi verið framburður vitnisins A, regluvarðar Glitnis banka hf. Við aðalmeðferð málsins í héraði hafi vitnið gefið skýrslu sem hafi verið óhagstæð endurupptökubeiðanda. Hann hafi meðal annars borið að endurupptökubeiðandi hafi í júlí 2008 tekið ákvörðun um útfærslu þeirra viðskipta sem II. kafli ákæru laut að. Við flutning málsins fyrir héraðsdómi hafi trúverðugleika regluvarðarins verið mótmælt af nánar tilgreindum ástæðum. Meðal annars hafi verið til þess vísað að framburður regluvarðarins um aðkomu endurupptökubeiðanda að viðskiptunum væri andstæður samtímagögnum, sem og skýrslu vitnisins hjá lögreglu. Þá hafi regluvörðurinn samkvæmt reglum bankans haft sérstöku hlutverki að gegna hvað viðskiptin varðaði og hafi hann tekið virkan þátt í þeim, sem geti hafa skýrt tilhneigingu hans til að vísa ábyrgð á aðra. 9.Niðurstaða héraðsdóms um sakfellingu endurupptökubeiðanda hafi meðal annars stuðst við framburð regluvarðarins en ekki hafi með rökstuddum hætti verið tekin afstaða til framangreindra mótmæla. Við áfrýjun málsins til Hæstaréttar hafi endurupptökubeiðandi gert athugasemdir við þetta og lýst þeim með skýrum og skilmerkilegum hætti í greinargerð til réttarins. Hæstiréttur hafi staðfest niðurstöðu héraðsdóms um sakfellingu endurupptökubeiðanda, meðal annars með vísan til framburðar regluvarðarins, án þess að nefnt væri að endurupptökubeiðandi hefði mótmælt trúverðugleika hans sérstaklega. Af forsendum dómsins verði ráðið að framburður regluvarðarins hafi verið lykilatriði sem rétturinn byggði sakfellingu á. 10.Með dómi Mannréttindadómstóls Evrópu hafi verið komist að þeirri niðurstöðu að rökstuðningur Hæstaréttar fyrir sakfellingu endurupptökubeiðanda hafi ekki staðist lágmarkskröfur um réttláta málsmeðferð samkvæmt 1. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Sérstaklega hafi verið vísað til þess að rétturinn hafi enga afstöðu tekið til málsvarna endurupptökubeiðanda sem lutu að skorti á trúverðugleika framburðar regluvarðarins. Þá hafi dómstóllinn tekið fram að framburður regluvarðarins hafi rist að kjarna II. kafla ákærunnar um hlutverk endurupptökubeiðanda við efndir söluréttarins. Sakfelling Hæstaréttar hafi að verulegu leyti byggst á framburði vitnisins hvað það varðaði. Hið sama ætti við um V. kafla ákæru þar sem vísað hafi verið til forsendna héraðsdóms sem einnig hafi byggt niðurstöðu sína á framburði regluvarðarins. Í dómi mannréttindadómstólsins hafi verið tekið fram að málsvörn endurupptökubeiðanda hafi verið sértæk, viðeigandi og mikilvæg í samhengi við málsatvik og hafi útheimt svör í forsendum dómsins. Niðurstaða dómstólsins hafi að þessu leyti verið samhljóða og endurupptökubeiðanda verið ákveðnar bætur og málskostnaður. 11.Um skilyrði til endurupptöku vísar endurupptökubeiðandi til a-, c- og d-liðar 1. mgr. 228. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Hann telur öll rök hníga til þess að umfjöllun um málsvarnir hans hefðu verulega miklu skipt fyrir niðurstöðu málsins, sbr. a-lið ákvæðisins. Þá felist í því sem að framan greinir að verulegar líkur séu á því að sönnunargögn sem færð voru fram í málinu hafi verið rangt metin svo að áhrif hafi á niðurstöðu þess, sbr. c-lið ákvæðisins. Loks verði ekki fram hjá því litið að skeytingarleysi um varnir endurupptökubeiðanda við samningu dómsforsendna hljóti að ENDURUPPTÖKUDÓMUR NR. 2/2025 - 3 - teljast verulegur annmarki á meðferð málsins þannig að áhrif hafi haft á niðurstöðu þess, sbr. d-lið 1. mgr. 228. gr. 12.Endurupptökubeiðandi telur rétt að endurupptaka málsins verði heimiluð í heild sinni og að málinu verði vísað til meðferðar og dómsálagningar að nýju í Landsrétti. Rökstuðningur gagnaðila 13.Gagnaðili endurupptökubeiðanda vísar til forsendna dóms Mannréttindadómstóls Evrópu í máli endurupptökubeiðanda gegn Íslandi og telur hvorki efni til að leggjast gegn beiðni hans um endurupptöku á dómi Hæstaréttar í máli nr. 478/2014 né að fjalla frekar um málið. Gagnaðili skilaði þó viðbótarathugasemdum þar sem fram kom að vitnið A væri látinn en bent var á að samkvæmt þingbók héraðsdóms í framangreindu máli hefði framburður vitnisins verið hljóðritaður við aðalmeðferð þess. Athugasemdir endurupptökubeiðanda við rökstuðning gagnaðila 14.Í tilefni af viðbótarathugasemdum gagnaðila kom endurupptökubeiðandi á framfæri þeirri athugasemd að þótt fyrir liggi að fyrrgreint vitni sé látið breyti það engu um fyrirætlanir hans um að leiða fyrir dóm við endurupptöku málsins þau vitni sem hann telji rétt að komi þar fyrir til skýrslugjafar. Niðurstaða 15.Endurupptökubeiðandi reisir beiðni sína um endurupptöku á a-, c- og d-lið 1. mgr. 228. gr., sbr. 1. mgr. 232. gr. laga nr. 88/2008 og vísar þar um til dóms Mannréttindadómstóls Evrópu í máli hans gegn Íslandi nr. 14175/16. Svo sem að framan greinir leggst gagnaðili endurupptökubeiðanda ekki gegn beiðninni. 16.Í dómi mannréttindadómstólsins er rakið að í greinargerð endurupptökubeiðanda til Hæstaréttar vegna málsins nr. 478/2014, hafi hann með skýrum hætti dregið í efa trúverðugleika vitnisburðar regluvarðar Glitnis banka hf. fyrir héraðsdómi, með nánar tilgreindum rökstuðningi. Hefðu þær athugasemdir samrýmst vörn hans um að honum hafi verið ókunnugt um hvernig staðið yrði að uppgjöri hlutabréfaviðskipta við BK-44 ehf. og hefði ekki fengið vitneskju þar um fyrr en eftir að frá því hefði verið gengið. Framburður regluvarðarins hafi tengst kjarnaatriði sakargifta um umboðssvik á hendur endurupptökubeiðanda samkvæmt II. kafla ákæru, það er þætti hans í því að svo var frágengið að Glitnir banki hf. skyldi bera alla markaðsáhættu vegna viðskiptanna sem um ræðir. Hafi sakfelling endurupptökubeiðanda hvað þennan þátt málsins varðar að verulegu leyti ráðist af vitnisburði regluvarðarins. Þá var til þess vísað að niðurstaða Hæstaréttar um sakfellingu endurupptökubeiðanda fyrir markaðsmisnotkun samkvæmt V. kafla ákærunnar hafi verið með vísan til forsendna héraðsdóms, sem í því efni hafi reist niðurstöðu sína á vitnisburði regluvarðarins, þannig að snerti einnig kjarna sakargifta á hendur endurupptökubeiðanda um markaðsmisnotkun. Talið var að málsvörn endurupptökubeiðanda, þar sem trúverðugleiki vitnisburðar regluvarðarins var dreginn í efa, hafi verið sértæk, viðeigandi og mikilvæg í samhengi við sakargiftir á hendur honum og hafi útheimt svör í forsendum dómsins. Í ljósi framangreinds var á það fallist með endurupptökubeiðanda að rökstuðningur Hæstaréttar fyrir niðurstöðu um sakfellingu hans með dómi réttarins í máli nr. 478/2014 hafi ekki staðist lágmarkskröfur um réttláta málsmeðferð fyrir dómi samkvæmt 1. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. ENDURUPPTÖKUDÓMUR NR. 2/2025 - 4 - 17.Fyrirmæli um hvað koma eigi fram í dómi í sakamáli er að finna í 183. gr. laga nr. 88/2008, sbr. og 4. mgr. 224. gr., áður 4. mgr. 207. gr. sömu laga. Samkvæmt f-lið 2. mgr. 183. gr. skal í dómi meðal annars greina svo stutt og glöggt sem verða má röksemdir dómara fyrir því hvað teljist sannað í málinu og með hverjum hætti. 18.Í a-lið 1. mgr. 228. gr. laga nr. 88/2008 segir að Endurupptökudómur geti orðið við beiðni um endurupptöku ef fram eru komin ný gögn eða upplýsingar sem ætla má að hefðu verulega miklu skipt fyrir niðurstöðu málsins ef gögnin eða upplýsingarnar hefðu komið fram áður en dómur gekk. Lagt hefur verið til grundvallar að dómur Mannréttindadómstóls Evrópu sem fallið hefur í máli þess sem endurupptöku beiðist teljist nýjar upplýsingar í skilningi ákvæðisins, sbr. meðal annars úrskurð Endurupptökudóms 21. janúar 2022 í máli nr. 18/2021. Þá hefur í dómaframkvæmd því ítrekað verið slegið föstu að líta beri til dóma mannréttindadómstólsins við skýringu mannréttindasáttmála Evrópu þegar reynir á hann sem hluta af landsrétti og að skýra beri önnur lög til samræmis við sáttmálann og úrlausnir dómstólsins, sbr. meðal annars dóm Hæstaréttar 18. mars 2021 í máli nr. 34/2020. Svo sem að framan greinir hefur mannréttindadómstóllinn komist að þeirri niðurstöðu í dómi í máli endurupptökubeiðanda gegn Íslandi að brotið hafi verið gegn rétti hans til réttlátrar málsmeðferðar fyrir dómi samkvæmt 1. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmálans. Verður því talið að uppfyllt séu skilyrði a-liðar 1. mgr. 228. gr. um að fram séu komnar nýjar upplýsingar sem ætla má að hefðu verulega miklu skipt fyrir niðurstöðu máls endurupptökubeiðanda hefðu þær komið fram áður en framangreindur dómur Hæstaréttar gekk. Er þá jafnframt litið til þeirrar afstöðu gagnaðila endurupptökubeiðanda að leggjast ekki gegn beiðni hans. Að þessari niðurstöðu fenginni þarf ekki að taka afstöðu til þess hvort skilyrðum c- og d-liðar 1. mgr. 228. gr. séu uppfyllt. 19.Samkvæmt framangreindu verður fallist á að skilyrði séu fyrir því að endurupptaka hæstaréttarmálið nr. 478/2014 hvað endurupptökubeiðanda varðar. Með dómi Hæstaréttar var endurupptökubeiðandi sem fyrr greinir sakfelldur samkvæmt I., II. og V. kafla ákæru en með dómi mannréttindadómstólsins var rökstuðningi réttarins fyrir sakfellingu samkvæmt tveimur síðarnefndu köflunum talið áfátt. Þar sem endurupptökubeiðanda var með dómi Hæstaréttar ákvörðuð refsing í einu lagi þykir þó ekki annað unnt en að endurupptaka málið í heild sinni hvað hann varðar. Í samræmi við endurupptökubeiðni og á grundvelli bráðabirgðaákvæðis XI við lög nr. 88/2008, sbr. 1. gr. laga nr. 15/2023, verður málinu vísað til meðferðar og dómsuppsögu í Landsrétti. 20.Skipuðum verjanda endurupptökubeiðanda verður samkvæmt 1. mgr. 230. gr. og 6. mgr. 231. gr., sbr. 6. mgr. 232. gr. laga nr. 88/2008 ákvörðuð þóknun með virðisaukaskatti eins og í úrskurðarorði greinir. Úrskurðarorð: Fallist er á beiðni endurupptökubeiðanda, Jóhannesar Baldurssonar, um endurupptöku á máli Hæstaréttar Íslands nr. 478/2014, sem dæmt var 3. desember 2015, hvað hann varðar og skal það tekið til meðferðar og dómsuppsögu í Landsrétti. Þóknun skipaðs verjanda endurupptökubeiðanda, Reimars Péturssonar lögmanns, 1.240.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.