Endurupptökudómur Úrskurður fimmtudaginn 2. október 2025 í máli nr. 3/2025 Endurupptökubeiðni Þórðar Daníels Ólafssonar 1.Dómararnir Berglind Svavarsdóttir, Hildur Briem og Stefán Geir Þórisson kveða upp úrskurð í máli þessu. 2.Með beiðni sem upphaflega barst Endurupptökudómi 10. júlí 2025, og aftur í endurbættu formi 28. sama mánaðar, ásamt frekari gögnum, fór endurupptökubeiðandi, Þórður Daníel Ólafsson, […], Reykjavík, fram á endurupptöku á máli nr. 203/2024: Einar Björn Jónsson og Helena Vattar Baldursdóttir gegn Þórði Daníel Ólafssyni, sem dæmt var í Landsrétti 10. apríl 2025. Þá óskar hann eftir því að réttaráhrifum dómsins verði frestað á meðan málið er til meðferðar hjá Endurupptökudómi. Ekki er að finna heimild í lögum nr. 91/1991 um meðferð einkamála til þess að fresta réttaráhrifum dóms í einkamáli á meðan endurupptökubeiðni er til meðferðar hjá Endurupptökudómi, samsvarandi þeirri lagaheimild sem er að finna í 2. mgr. 230. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Verður því ekki tekin afstaða til þeirrar kröfu. Málsatvik 3.Með kaupsamningi 7. júlí 2021 seldi endurupptökubeiðandi gagnaðilum fasteign að Urðarbrunni 58 í Reykjavík. Eftir afhendingu töldu gagnaðilar sig verða vör við galla á eigninni og héldu því eftir samtals 15.000.000 króna af umsömdu kaupverði. Endurupptökubeiðandi höfðaði mál á hendur gagnaðilum og krafðist þess að þeim yrði gert að greiða 14.539.200 króna eftirstöðvar af umsömdu kaupverði fasteignar ásamt nánar tilgreindum dráttarvöxtum gegn útgáfu afsals. Gagnaðilar höfðuðu gagnsök á hendur endurupptökubeiðanda til skuldajafnaðar og greiðslu skaðabóta vegna galla á fasteigninni. Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 14. febrúar 2024 í máli nr. E-5934/2021 féllst héraðsdómur á að fasteignin væri gölluð og að réttmæt krafa gagnaðila vegna galla á eigninni væri 5.936.650 krónur, auk kröfu vegna gólfhita sem endurupptökubeiðandi hafði viðurkennt að fjárhæð 460.800 krónur, eða samtals 6.397.450 krónur. Var gagnaðilum því gert að greiða endurupptökubeiðanda 8.602.550 krónur auk dráttarvaxta. 4.Gagnaðilar áfrýjuðu málinu til Landsréttar og endurupptökubeiðandi gagnáfrýjaði. Með dómi Landsréttar 10. apríl 2025 í máli nr. 203/2024 féllst Landsréttur á frekari galla á fasteigninni og bætur vegna afnotamissis. Var niðurstaða Landsréttar sú að réttmæt krafa gagnaðila vegna galla á fasteigninni næmi 12.416.700 krónum, auk kröfu um gólfhita að fjárhæð 460.800 krónur, eða samtals 12.877.500 krónur. Var gagnaðilum gert að greiða endurupptökubeiðanda 2.122.500 krónur, gegn útgáfu hans á afsali til þeirra fyrir eigninni, auk nánar tilgreindra vaxta. 5.Fyrir liggur, þótt þess sé ekki getið í beiðni endurupptökubeiðanda, að hann leitaði leyfis Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar í málinu. Með ákvörðun 3. júlí 2025 í máli nr. 2025-99 hafnaði Hæstiréttur beiðni endurupptökubeiðanda þar sem skilyrði 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála væru ekki uppfyllt og þá yrði ekki séð að dómur Landsréttar væri bersýnilega rangur að formi eða efni til, sbr. 4. málslið sömu málsgreinar. Vísaði Hæstiréttur ENDURUPPTÖKUDÓMUR NR. 3/2025 - 2 - jafnframt til þess að dómur Landsréttar, sem skipaður var sérfróðum meðdómsmanni, hafi að meginstefnu verið reistur á því að ekki hefði verið gætt upplýsingaskyldu við kaupin. Rökstuðningur málsaðila Rökstuðningur endurupptökubeiðanda 6.Málatilbúnaður endurupptökubeiðanda er ekki svo skýr sem æskilegt væri. Þá uppfyllir beiðni hans ekki að öllu leyti þær kröfur sem gerðar eru til slíkrar beiðni í reglum um starfsemi Endurupptökudóms. Hvorki er í beiðni vísað til viðeigandi lagaákvæða í lögum nr. 91/1991 né heldur er þar nægjanlega leitast við að sýna fram á að þeim lagaskilyrðum sem þar eru sett fyrir endurupptöku máls sem dæmt hefur verið í Landsrétti sé efnislega fullnægt. Endurupptökubeiðnin ber það með sér að endurupptökubeiðandi telji dóm Landsréttar vera rangan. Byggir hann í meginatriðum á því að gögn málsins, þar á meðal ný gögn sem lögð séu fram með beiðninni, sýni að annar gagnaðila hafi haft bæði þekkingu og innsýn í byggingartæknileg atriði, andstætt því sem lagt hafi verið til grundvallar í dómi Landsréttar. Þá hafi sá gagnaðili haft vitneskju um gallana við undirritun kaupsamnings þar sem upplýsingar um þá hafi komið fram í ástandsskoðun sem framkvæmd var fyrir hans tilstuðlan. Auk þess hafi dómur Landsréttar ekki verið í samræmi við fyrri dómaframkvæmd um mat á því hvenær fasteign teljist vera haldin göllum. 7.Kröfuna um frestun réttaráhrifa byggir endurupptökubeiðandi á því að dómur Landsréttar sé haldinn verulegum form- og efnisgöllum. Niðurstaða 8.Samkvæmt 1. mgr. 191. gr., sbr. 1. mgr. 193. gr., laga nr. 91/1991 getur Endurupptökudómur orðið við beiðni um að mál sem dæmt hefur verið í Landsrétti verði endurupptekið ef skilyrðum a- eða b-liðar ákvæðisins er fullnægt, enda mæli atvik með því að leyfið verði veitt, þar á meðal að stórfelldir hagsmunir aðilans séu í húfi. Í a-lið 1. mgr. 191. gr. er kveðið á um heimild til endurupptöku máls ef sterkar líkur eru leiddar að því með nýjum gögnum eða upplýsingum að málsatvik hafi ekki verið leidd réttilega í ljós þegar það var til meðferðar og aðilanum verður ekki um það kennt og að gögnin eða upplýsingarnar muni verða til breyttrar niðurstöðu í mikilvægum atriðum. Samkvæmt b-lið er endurupptaka heimiluð ef sterkar líkur eru leiddar að því að ný gögn eða upplýsingar um annað en málsatvik muni verða til breyttrar niðurstöðu í mikilvægum atriðum. 9.Ekkert af þeim gögnum sem lögð hafa verið fyrir Endurupptökudóm urðu til eftir að málið var til meðferðar hjá Landsrétti, ef undan eru skilin fáein skjöl sem fela í sér tölvupóstsamskipti milli endurupptökubeiðanda og lögmanna hans í kjölfar dóms réttarins. Þau gögn sem endurupptökubeiðandi virðist helst byggja á sem nýjum í þeim skilningi að honum hafi ekki verið um þau kunnugt fyrr en að gengnum dómi Landsréttar, virðast vera úrskurður Úrskurðarnefndar í umhverfis- og auðlindamálum frá árinu 2022 og tölvupóstsamskipti annars gagnaðila við úttektarfulltrúa hjá Reykjavíkurborg á árunum 2021 til 2022, vegna útgáfu vottorðs um lokaúttekt byggingarfulltrúa á fasteigninni. Ekki fæst séð að um sé að ræða nein ný gögn eða upplýsingar í skilningi 1. mgr. 191. gr. laga nr. 91/1991 sem sterkar líkur eru á að muni leiða til breyttrar niðurstöðu í mikilvægum atriðum, hvort sem litið er til skilyrða a- eða b-liðar ákvæðisins. 10.Í beiðni sinni til Endurupptökudóms hefur endurupptökubeiðandi heldur ekki fært nein haldbær rök fyrir því að stórfelldir hagsmunir hans séu í húfi í skilningi 1. mgr. 191. gr. laga nr. 91/1991 eða að atvik mæli að öðru leyti með endurupptöku málsins. ENDURUPPTÖKUDÓMUR NR. 3/2025 - 3 - 11.Með vísan til alls framangreinds er hvorki fullnægt skilyrðum a- eða b-liðar 1. mgr. 191. gr. laga nr. 91/1991 né hinu almenna skilyrði fyrir endurupptöku í 1. mgr. ákvæðisins. Telst beiðnin bersýnilega ekki á rökum reist í skilningi 2. mgr. 192. gr. laga nr. 91/1991. Verður henni því hafnað án frekari málsmeðferðar. Úrskurðarorð: Beiðni endurupptökubeiðanda, Þórðar Daníels Ólafssonar, um endurupptöku á máli nr. 203/2024 sem dæmt var í Landsrétti 10. apríl 2025 er hafnað.