Endurupptökudómur Úrskurður þriðjudaginn 9. desember 2025 í máli nr. 4/2025 Endurupptökubeiðni A 1.Dómararnir Berglind Svavarsdóttir, Hildur Briem og Stefán Geir Þórisson kveða upp úrskurð í máli þessu. 2.Með beiðni sem barst Endurupptökudómi 29. júlí 2025 fór endurupptökubeiðandi, A, […], fram á endurupptöku á máli nr. 403/2023, Vátryggingafélag Íslands hf. gegn A, sem dæmt var í Landsrétti 19. september 2024. Verði fallist á endurupptöku krefst endurupptökubeiðandi þess að áhrif fyrri dóms falli niður í heild á meðan málið er rekið. Þá krefst endurupptökubeiðandi málskostnaðar fyrir Endurupptökudómi. 3.Gagnaðili, Vátryggingafélag Íslands hf., nú VÍS tryggingar hf., krefst þess að beiðni endurupptökubeiðanda verði hafnað og að dómur Landsréttar í máli nr. 403/2023 haldi gildi sínu á meðan málið er rekið. Auk þess krefst gagnaðili málskostnaðar fyrir Endurupptökudómi. Gagnaöflun lauk í málinu 20. október 2025. Málsatvik 4.Í málinu deildu aðilar um hvort sannað væri að endurupptökubeiðandi hefði orðið fyrir slysi í skilningi skilmála slysatryggingar launþega þannig að veitti henni rétt til bóta úr tryggingunni. Atvik málsins voru þau að 25. október 2019 varð endurupptökubeiðandi fyrir líkamstjóni þegar hún lyfti upp barni á leikskóla þar sem hún starfaði sem leikskólakennari. Samkvæmt tilkynningu frá leikskólastjóra til Sjúkratrygginga Íslands 26. febrúar 2020 var atvikinu lýst þannig að endurupptökubeiðandi hefði verið að aðstoða börn við að setjast til hádegisverðar og að hún hafi lyft upp barni til að setja það í barnastól. Hún hafi þá fundið eitthvað smella í baki og hafi ekki getað hreyft sig úr stöðunni sem hún hafi verið í. Sjúkratryggingar Íslands höfnuðu bótaskyldu sem og gagnaðili. Sjúkratryggingar Íslands féllust síðar á bótaskyldu eftir að hafa móttekið ítarlegri lýsingu á tjónsatviki með bréfi lögmanns endurupptökubeiðanda 6. apríl 2021 en þar var atvikinu lýst þannig að endurupptökubeiðandi hafi orðið fyrir slysi við að lyfta barni sem hafi skyndilega byrjað að gráta og sprikla með miklum látum, sem leitt hafi til þess að endurupptökubeiðandi rykktist til og heyrði smell í mjóbakinu. Gagnaðili hafnaði sem fyrr bótaskyldu. 5.Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 27. apríl 2023 var fallist á rétt endurupptökubeiðanda til greiðslu bóta úr hendi gagnaðila. 6.Með dómi Landsréttar 19. september 2024 var gagnaðili sýknaður af kröfu endurupptökubeiðanda. Í dóminum kom meðal annars fram að eftir að Sjúkratryggingar Íslands höfðu hafnað umsókn endurupptökubeiðanda um bætur úr slysatryggingu almannatrygginga hefði komið fram ný lýsing á atvikum málsins er hafi lotið að því að skyndileg hegðunarbreyting barnsins hefði valdið því að endurupptökubeiðandi hefði rykkst til og heyrt smell í mjóbakinu. Í dómi Landsréttar var rakið að engin vitni hefðu getað varpað ljósi á tildrög meiðslanna og ENDURUPPTÖKUDÓMUR NR. 4/2025 - 2 - endurupptökubeiðandi hefði ekki með haldbærum gögnum sýnt fram á að atvik hefðu verið með þessum hætti. Væri því ósannað að endurupptökubeiðandi hefði orðið fyrir slysi í skilningi vátryggingarskilmálanna. 7.Eftir að dómur Landsréttar gekk gaf leikskólastjóri vátryggingartaka út yfirlýsingu, sem dagsett er 2. október 2024. Í þeirri yfirlýsingu staðfestir leikskólastjórinn að endurupptökubeiðandi hafi á sama degi og atvikið varð lýst því fyrir henni að það hefði borið að með þeim hætti að hún hefði beygt sig niður eftir barni og lyft því upp. Barnið hefði svo skyndilega byrjað að gráta og spriklað með miklum látum, sem hefði leitt til þess að endurupptökubeiðandi fékk slink á bakið og við það heyrt smell í mjóbakinu. Í sömu yfirlýsingu kemur fram að fyrri tjónstilkynningar hafi verið efnislega réttar, eins langt og þær náðu, en ónákvæmar um atvik og breytingu á hegðun barnsins. 8.Hæstiréttur Íslands hafnaði umsókn endurupptökubeiðanda um leyfi til að áfrýja dómi Landsréttar með ákvörðun 18. nóvember 2024. Rökstuðningur málsaðila Rökstuðningur endurupptökubeiðanda 9.Endurupptökubeiðandi byggir á því að skilyrði a-liðar 1. mgr. 191. gr., sbr. 1. mgr. 193. gr., laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála fyrir endurupptöku séu uppfyllt. 10.Endurupptökubeiðandi telur ljóst af forsendum dóms Landsréttar að skortur á því að leikskólastjórinn hefði verið leidd sem vitni fyrir Landsrétt eða að aflað væri skriflegrar yfirlýsingar frá henni til staðfestingar á framangreindri atburðarás hafi ráðið úrslitum um niðurstöðu Landsréttar um sýknu gagnaðila. Endurupptökubeiðandi telur að þar sem Landsréttur hafi talið framangreint atriði skipta sköpum við sönnunarmat þá hafi réttinum borið í samræmi við 2. mgr. 46. gr., sbr. 104. gr., laga nr. 91/1991 að beina því til endurupptökubeiðanda að leiða leikskólastjórann fyrir Landsrétt til að freista þess að upplýsa um málsatvik. Það hafi verið sérstaklega mikilvægt í ljósi þess að Landsréttur lagði við sönnunarmat sitt höfuðáherslu á tilkynningu um slysið sem stafaði frá leikskólastjóranum og hafði að geyma ónákvæma og ófullburða lýsingu á málsatvikum. 11.Endurupptökubeiðandi telur dóm Landsréttar sýnilega rangan þar sem rétturinn taldi framburð endurupptökubeiðanda skorta stoð bæði í gögnum málsins og framburði vitna. Endurupptökubeiðandi vísar til þess að framburður hennar fái þvert á móti stoð í málsgögnum þar á meðal beiðni um endurupptöku hjá Sjúkratryggingum Íslands auk þess sem vitni hafi staðfest að barn hafi grátið skömmu áður en endurupptökubeiðandi slasaðist. Að endingu sé það röng niðurstaða í forsendum Landsréttar að framburður endurupptökubeiðanda sé í andstöðu við gögn sem frá henni stafa, enda stöfuðu fyrstu tjónstilkynningar frá leikskólanum en ekki henni. Auk þess hafi þau gögn verið á íslensku en endurupptökubeiðandi tali og skilji mjög takmarkaða íslensku. Í yfirlýsingu leikskólastjórans komi fram að fyrri tjónstilkynningar hafi verið efnislega réttar en að þær hafi einvörðungu innihaldið upphaf og endi á umþrættri atburðarrás. Nánar tiltekið hafi vantað í tilkynningarnar miðjuna á atburðarrásinni. 12.Endurupptökubeiðandi telur einsýnt að hið nýja gagn muni hafa afgerandi áhrif á niðurstöðu málsins og leiða til breyttrar niðurstöðu í því. Skilyrði a-liðar 1. mgr. 191. gr., sbr. 1. mgr. 193. gr., laga nr. 91/1991 séu þannig uppfyllt og beri því að fallast á endurupptöku málsins. Þá séu miklir hagsmunir í húfi fyrir endurupptökubeiðanda, sem hafi orðið fyrir alvarlegu líkamstjóni með tilheyrandi óvinnufærni og tekjutapi, sbr. niðurlag 1. mgr. 191. gr. laganna. Endurupptökubeiðanda ENDURUPPTÖKUDÓMUR NR. 4/2025 - 3 - verði ekki um kennt að umrætt gagn hafi ekki legið fyrir við meðferð málsins í Landsrétti enda hafi réttinum verið skylt að gæta þess að eigin frumkvæði að málsatvik væru nægilega upplýst að þessu leyti, sbr. 2. mgr. 46. gr. og 104. gr. laga nr. 91/1991. Þar sem niðurstaða Landsréttar sé í andstöðu við yfirlýsingu leikskólastjórans byggir endurupptökubeiðandi á því að málsatvik hafi ekki verið leidd réttilega í ljós þegar málið hafi verið til meðferðar, sem endurupptökubeiðanda verði ekki um kennt, auk þess sem hið nýja gagn muni verða til breyttrar niðurstöðu í mikilvægum atriðum. Rökstuðningur gagnaðila 13.Gagnaðili byggir kröfu sína um að beiðni endurupptökubeiðanda verði hafnað á því að lagaskilyrði 1. mgr. 193. gr., sbr. 1. mgr. 191. gr., laga nr. 91/1991 séu ekki uppfyllt. 14.Gagnaðili mótmælir því í fyrsta lagi að skilyrði um stórfellda hagsmuni endurupptökubeiðanda sé uppfyllt. Málið varði viðurkenningarkröfu endurupptökubeiðanda um bótaskyldu úr slysatryggingu launþega. Í málinu liggi ekki fyrir örorkumat á líkamstjóni endurupptökubeiðanda og því óljóst hvert tjón hennar sé, sem og bótafjárhæðir. Krafa endurupptökubeiðanda sé vanreifuð um hvort þetta skilyrði sé uppfyllt og beri hún hallann af því. 15.Gagnaðili byggir í öðru lagi á því að skilyrði a-liðar 1. mgr. 191. gr. laga nr. 91/1991 séu ekki uppfyllt í máli þessu. Hann mótmælir því að framburður leikskólastjórans eða yfirlýsing breyti einhverju um niðurstöðu máls þessa. Fyrir liggi að endurupptökubeiðandi hafi verið margsaga um aðdraganda slyssins og önnur vitni sem hafi verið á staðnum þegar slysið varð hafi ekki getað staðfest þá frásögn sem endurupptökubeiðandi hafi gefið fyrir dómi. Í líkamstjónamálum beri tjónþoli sönnunarbyrði fyrir atvikum máls, sem og skilyrðum bótaskyldu. Þá hafi hann einnig forræði á sönnunarfærslu sinni, þar með talið framlagningu gagna og vitnaleiðslum. Hafi endurupptökubeiðanda því verið í lófa lagið að leggja fram fyrrnefnda yfirlýsingu á fyrri stigum málsins og leiða leikskólastjórann sem vitni. Ábyrgð á því að umrædd sönnunarfærsla hafi ekki farið fram verði ekki lögð á Landsrétt eins og endurupptökubeiðandi byggi á. 16.Þá leiði af orðalaginu „sterkar líkur“ að gerðar séu ríkar kröfur til þess að ný gögn eða framburðir muni leiða til breyttrar niðurstöðu en því fari fjarri að svo sé í þessu máli. Yfirlýsing leikskólastjórans geti ekki talist nýtt gagn í skilningi a-liðar 1 mgr. 191. gr. laga nr. 91/1991, enda hafi vitneskja leikskólastjórans verið til staðar áður en málið var höfðað. Er því hvorki sýnt að málsatvik hafi ekki verið leidd réttilega í ljós né að endurupptökubeiðanda verði ekki um kennt að umrædd sönnunarfærsla fór ekki fram. 17.Í þriðja lagi er því einnig hafnað að skilyrði b-liðar 1. mgr. 191. gr. laga nr. 91/1991 sé uppfyllt í málinu. Gagnaðili vísar til þess að í gögnum málsins sé að finna allnokkrar misvísandi lýsingar á atvikum og aðdraganda hins meinta slyss endurupptökubeiðanda. Þá hafi samstarfsfélagar endurupptökubeiðanda komið fyrir dóm og borið um málavexti. Einnig liggi fyrir að leikskólastjórinn hafi ekki verið vitni að umræddu atviki og geti því ekki borið um nákvæm tildrög þess. Að því virtu fái gagnaðili ekki séð að hið nýja skjal og framburður leikskólastjórans muni leiða til breyttrar niðurstöðu í veigamiklum atriðum. Þvert á móti telji gagnaðili umrætt skjal og framburð hafa óverulegt gildi við úrlausn málsins. 18.Gagnaðili bendir á að Hæstiréttur hafi hafnað málskotsbeiðni endurupptökubeiðanda þrátt fyrir framlagða yfirlýsingu leikskólastjórans og hafi því í raun tekið afstöðu og hafnað málsástæðum endurupptökubeiðanda. ENDURUPPTÖKUDÓMUR NR. 4/2025 - 4 - Niðurstaða 19.Samkvæmt 1. mgr. 191. gr., sbr. 1. mgr. 193. gr., laga nr. 91/1991 getur Endurupptökudómur orðið við beiðni um að mál sem dæmt hefur verið í Landsrétti eða Hæstarétti verði endurupptekið ef skilyrðum a- eða b-liðar ákvæðisins er fullnægt, enda mæli atvik með því að leyfið verði veitt, þar á meðal að stórfelldir hagsmunir aðilans séu í húfi. Í a-lið 1. mgr. 191. gr. er kveðið á um heimild til endurupptöku máls ef sterkar líkur eru leiddar að því með nýjum gögnum eða upplýsingum að málsatvik hafi ekki verið leidd réttilega í ljós þegar það var til meðferðar og aðilanum verði ekki um það kennt og að gögnin eða upplýsingarnar muni verða til breyttrar niðurstöðu í mikilvægum atriðum. Samkvæmt b-lið er endurupptaka heimiluð ef sterkar líkur eru leiddar að því að ný gögn eða upplýsingar um annað en málsatvik muni verða til breyttrar niðurstöðu í mikilvægum atriðum. 20.Af 3. mgr. 193. gr., sbr. 7. mgr. 192. gr., laga nr. 91/1991 leiðir að um málsmeðferð fyrir Endurupptökudómi gilda almenn ákvæði laganna að því marki sem ekki er að finna sérreglur um hana í XXVIII. og XXIX. kafla laganna. Í ákvæðum 116. gr. laga nr. 91/1991 felast reglur um réttaráhrif dóma byggðar á þeirri grunnreglu að dómur skuli vera endir þrætu og sama sakarefnið því ekki dæmt að nýju. Sú grunnregla gildir jafnframt samkvæmt lögunum að málsaðilum ber að tefla fram kröfum, málsástæðum og öðrum atriðum sem varða málatilbúnað þeirra, þar á meðal þeim sönnunargögnum sem þeir vilja reisa hann á, svo fljótt sem kostur er. Samkvæmt 5. mgr. 101. gr. skulu málsástæður og mótmæli koma fram jafnskjótt og tilefni er til og dómar verða ekki byggðir á öðrum málsástæðum eða mótmælum en sem komu fram við meðferð máls, sbr. 2. mgr. 111. gr. laganna. 21.Málsaðilar hafa þannig fullt forræði á sönnunarfærslu fyrir dómi og því er haldlaus sá málatilbúnaður endurupptökubeiðanda að sönnunarfærsla málsins hafi verið á ábyrgð réttarins. Málsaðili dæmds einkamáls getur ekki fengið mál endurupptekið til þess að koma að nýjum kröfum eða málsástæðum eða eftir atvikum að leggja fram sönnunargögn sem hann gat lagt fram en gerði ekki, sbr. a- lið 1. mgr. 191. gr. laga nr. 91/1991 er kveður á um að heimild til endurupptöku sé bundin við það að aðilanum verði ekki um það kennt að ný gögn eða upplýsingar um málsatvik hafi ekki komið fyrr fram. 22.Þá verður heldur ekki fallist á að endurupptökubeiðandi hafi leitt að því sterkar líkur með nýjum gögnum eða upplýsingum að málsatvik hafi ekki verið leidd réttilega í ljós þegar mál hans gegn gagnaðila var til meðferðar og að gögnin eða upplýsingarnar muni verða til breyttrar niðurstöðu í mikilvægum atriðum, eins og áskilið er í a-lið 1. mgr. 191. gr. laga nr. 91/1991. Endurupptökubeiðandi hefur að öðru leyti ekki fært haldbær rök fyrir því að uppfyllt séu skilyrði laganna til að verða við beiðni hans. 23.Að öllu framangreindu virtu er það niðurstaða Endurupptökudóms að ekki séu uppfyllt skilyrði laga fyrir endurupptöku málsins og ber því að hafna beiðni endurupptökubeiðanda. 24.Með hliðsjón af atvikum öllum er rétt að málskostnaður milli aðila falli niður. Úrskurðarorð: Beiðni endurupptökubeiðanda, A, um endurupptöku á máli nr. 403/2023 sem dæmt var í Landsrétti 19. september 2024 er hafnað. Málskostnaður fellur niður. ENDURUPPTÖKUDÓMUR NR. 4/2025 - 5 -