Endurupptökudómur Úrskurður föstudaginn 14. mars 2025 í máli nr. 5/2024 Endurupptökubeiðni Félags landfræðinga 1.Dómararnir Eiríkur Elís Þorláksson, Karl Axelsson og Stefán Geir Þórisson kveða upp úrskurð í máli þessu. 2.Með beiðni sem barst Endurupptökudómi 10. október 2024 fór endurupptökubeiðandi, Félag landfræðinga, með óskráð heimilisfang en stjórnstöð að […], Reykjavík, fram á endurupptöku á máli nr. G-2543/2023: Skatturinn gegn Félagi landfræðinga, sem lauk með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 25. september 2023. Þá krefst endurupptökubeiðandi málskostnaðar fyrir Endurupptökudómi. 3.Gagnaðili, Skatturinn, krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá dómi en til vara að beiðni endurupptökubeiðanda verði hafnað. Auk þess krefst gagnaðili málskostnaðar fyrir Endurupptökudómi. Gagnaöflun í málinu lauk 13. janúar 2025. Málsatvik 4.Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 25. september 2023 í máli G-2453/2023 var bú endurupptökubeiðanda tekið til skipta á grundvelli ákvæðis II til bráðabirgða við lög nr. 82/2019 um skráningu raunverulegra eigenda, sbr. 6.-8. mgr. 17. gr. laganna. Krafa gagnaðila um skiptin var byggð á því að endurupptökubeiðandi hefði ekki sinnt skyldu sinni samkvæmt lögum nr. 82/2019 um að tilkynna raunverulega eigendur sína. Krafan var tekin fyrir 11. september 2023 eftir að fyrirkall hafði verið birt í Lögbirtingablaði en útivist varð að hálfu endurupptökubeiðanda. Að uppkveðnum úrskurðinum var nafngreindur lögmaður skipaður skiptastjóri yfir búi endurupptökubeiðanda. 5.Samkvæmt endurupptökubeiðanda varð honum fyrst kunnugt um málsmeðferðina og framangreindan úrskurð héraðsdóms 31. október 2023. Með bréfi 23. nóvember sama ár fór hann fram á að gagnaðili afturkallaði beiðni um skipti á félaginu. Í bréfinu kom fram að endurupptökubeiðandi væri að taka til starfa á ný eftir að starfsemi félagsins hefði legið niðri tímabundið og félagið hefði hvorki fengið áskorun frá gagnaðila um að skrá raunverulega eigendur sína né upplýsingar um að málið væri komið í farveg dómsúrskurðar. 6.Gagnaðili svaraði erindi endurupptökubeiðanda með tölvubréfi 28. nóvember 2023. Þar var tiltekið að málsmeðferðin hefði verið í samræmi við lög nr. 139/2022 um breytingu á lögum nr. 82/2019. Í því sambandi var vísað til áskorunar um að skrá raunverulega eigendur endurupptökubeiðanda sem birst hefði í Lögbirtingablaði 11. janúar 2023 og auglýsingar sama efnis í fjölmiðlum 12. sama mánaðar. Þá hefði tilkynning um ákvörðun gagnaðila um að krefjast skipta á búi endurupptökubeiðanda verið birt í Lögbirtingablaði 14. febrúar 2023. Auk þess hefði áskorun um að skrá raunverulega eigendur upphaflega verið send í bréfi á skráð póstfang endurupptökubeiðanda 6. mars 2020. Jafnframt var vísað til þess að í 7. mgr. 17. gr. laga nr. ENDURUPPTÖKUDÓMUR NR. 5/2024 - 2 - 82/2019 kæmi fram að væri krafa um skipti tekin til greina skyldi fara með búið eftir fyrirmælum laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl. Úrskurður um töku bús endurupptökubeiðanda til skipta væri endanlegur og að ekki væri gert ráð fyrir þeim möguleika að félagsmenn fengju aftur umráð félagsins. 7.Í desember 2023 munu félagsmenn endurupptökubeiðanda hafa fregnað að Stangaveiðifélag Rangæinga, sem tekið hefði verið til skipta á sama grundvelli, hefði lagt fram beiðni um endurupptöku máls síns til Héraðsdóms Reykjavíkur. Í kjölfarið sendi endurupptökubeiðandi tölvubréf til héraðsdóms þar sem vísað var til máls stangaveiðifélagsins og upplýst um að endurupptökubeiðandi hygðist fara fram á að mál hans yrði endurupptekið. Óskaði hann eftir leiðbeiningum um hvernig staðið skyldi að slíkri beiðni og upplýsingum um tímafresti. Erindinu var svarað 4. janúar 2024 þar sem vísað var til heimildar til endurupptöku útivistarmáls í héraði í 137. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. 8.Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 1. febrúar 2024 í máli nr. I-7007/2023 var kröfu stangaveiðifélagsins um að mál þess yrði endurupptekið hafnað. Stangaveiðifélagið skaut málinu til Landsréttar sem með úrskurði 14. júní 2024 í máli nr. 117/2024 féllst á kröfu þess um endurupptöku málsins. Að úrskurði Landsréttar gengnum tilkynnti gagnaðili um að hann afturkallaði kröfu sína um skipti á búi stangaveiðifélagsins. Í kjölfarið var mál félagsins fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur fellt niður og þar með réttaráhrif fyrri úrskurðar. 9.Endurupptökubeiðandi sendi gagnaðila bréf 19. júní 2024 þar sem farið var fram á afturköllun skipta á búi félagsins með vísan til framangreinds úrskurðar Landsréttar. Með bréfinu fylgdi félagatal og upplýsingar um stjórn endurupptökubeiðanda vegna skráningar raunverulegra eigenda. Erindinu var svarað 27. júní 2024 þar sem gagnaðili synjaði kröfunni um afturköllun. Vísað var til fyrri samskipta og endurupptökubeiðanda bent á að unnt væri að beiðast endurupptöku fyrir héraðsdómi á grundvelli ákvæða XXIII. kafla laga nr. 91/1991 en gagnaðili teldi fresti til að fara fram á endurupptöku málsins samkvæmt ákvæðum kaflans vera liðna. Rökstuðningur málsaðila Rökstuðningur endurupptökubeiðanda 10.Endurupptökubeiðandi vekur athygli á úrskurðum Endurupptökudóms í málum nr. 1/2021, 4/2021, 9/2021, 17/2021 og 4/2023. Öllum þessum málum hafi verið vísað frá Endurupptökudómi með þeim rökum að ákvæði 191. og 193. gr. gr. laga nr. 91/1991, fjalli eingöngu um endurupptöku dóma en nái ekki til úrskurða dómstóla. 11.Með vísan til úrskurðar Landsréttar í máli nr. 117/2024 telur endurupptökubeiðandi hins vegar að í sérlögum sé heimild til þess að óska endurupptöku úrskurða héraðsdóms um töku bús skráningarskylds aðila til skipta, þar sem útivist hefur orðið. Fari um slíka beiðni eftir almennum reglum um endurupptöku útivistarmála í héraði. Lagaheimildin felist í samanburðarskýringu 6. mgr. 17. gr. laga nr. 82/2019, sbr. 2. mgr. 178. gr. og 3. mgr. 176. gr. laga nr. 21/1991, 5. mgr. 137. gr. og 191. gr. laga nr. 91/1991. Endurupptökudómur hafi því heimild til að fjalla um endurupptöku máls sem lokið hefur með úrskurði um töku bús skráningarskylds aðila til skipta, þar sem útivist hefur orðið. Vísar endurupptökubeiðandi til þess að sambærilegri samanburðarskýringu hafi verið beitt í úrskurði Endurupptökudóms 10. nóvember 2022 í máli nr. 14/2022 er dómurinn hafi komist að þeirri niðurstöðu að hann hefði heimild til að fjalla um endurupptöku máls sem lokið hafði með áritun héraðsdómara á stefnu. ENDURUPPTÖKUDÓMUR NR. 5/2024 - 3 - 12.Þá byggir endurupptökubeiðandi á því að við úrlausn um hvort taka eigi beiðni félagsins til efnislegrar úrlausnar verði að horfa til þess að réttur aðila til aðgangs að dómstólum sé tryggður í 70. gr. stjórnarskrár, sbr. 1. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Því geti takmarkanir á heimildum sem eigi að tryggja þann rétt í lögum nr. 91/1991 aðeins átt við þegar ríkari hagsmunir annarra eru til staðar. Auk þess verði að túlka slíkar takmarkanir, þar á meðal þær sem skapast hafi í réttarframkvæmd hvað varðar endurupptöku úrskurða, afar þröngt þegar aðili hefur ekki afsalað sér rétti til að koma fyrir dóm í máli sínu. Vísar endurupptökubeiðandi þar um til dóms Mannréttindadómstóls Evrópu frá 4. mars 2014 í málum nr. 7942/05 og 24838/05, Dilipark og Karakaya gegn Tyrklandi. 13.Fyrirkall í máli því sem óskað sé endurupptöku á hafi verið birt í Lögbirtingablaði. Fyrirsvarsmaður endurupptökubeiðanda og aðrir stjórnarmenn hafi ekki verið upplýstir um málsmeðferðina og niðurstöðu héraðsdóms fyrr en eftir að úrskurður gekk í málinu. Hafi félagið hvorki í orði né verki afsalað sér rétti til að koma fyrir dóm vegna sakarefnisins og taka þar til varna. Samkvæmt 1. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmálans, sbr. 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar, beri að tryggja félaginu raunhæf úrræði til að fá málið endurupptekið. Endurupptökubeiðanda hafi hvorki verið birt dómsniðurstaða í málinu né kynntir möguleikar á að fá úrlausnina endurskoðaða. Þvert á móti hafi gagnaðili gefið skýrt til kynna að niðurstaðan væri endanleg og að endurupptökubeiðandi gæti ekkert aðhafst til að fá henni hnekkt. Á sama hátt hafi skipaður skiptastjóri ekki getað bent endurupptökubeiðanda á neina augljósa leið til að fá slitameðferð afturkallaða. Þannig hafi frestur endurupptökubeiðanda samkvæmt 1. og 2. mgr. 137. gr. laga nr. 91/1991, til að fá málið endurupptekið, liðið undir lok 30. nóvember 2023 á meðan félagið kallaði eftir upplýsingum um úrræði sín frá skiptastjóra og gagnaðila. 14.Endurupptökubeiðandi byggir á því að skilyrði b-liðar 1. mgr. 191. gr. laga nr. 91/1991, um að sterkar líkur séu á að ný gögn og upplýsingar um annað en málsatvik muni verða til breyttrar niðurstöðu í mikilvægum atriðum, séu uppfyllt. Telur hann að upplýsingar um að aðila sem ekki hefur verið kunnugt um málarekstur gegn sér en hafi þvert á móti vilja til að koma fyrir dóm og halda þar uppi vörnum, teljist „ný gögn eða upplýsingar“ í skilningi b-liðar. Vísar endurupptökubeiðandi til úrskurða Endurupptökudóms 8. september 2022 í máli nr. 16/2021 og í máli nr. 14/2022. Endurupptökubeiðandi telur ekki efni til þess að gera greinarmun á skilyrðum a- og b-liðar hvað þetta varðar. Þær upplýsingar sem um ræði hefðu einnig skipt verulegu máli fyrir niðurstöðu málsins og þannig séu sterkar líkur á að þær verði til breyttrar niðurstöðu í mikilvægum atriðum. Hefði endurupptökubeiðandi átt þess kost að vera viðstaddur meðferð málsins og taka til varna hefði hann getað fullnægt skráningarskyldu sinni og komið þannig í veg fyrir skipti á búi sínu, enda markmiðum laga nr. 82/2019 þá náð og grundvöllur að kröfu gagnaðila ekki lengur fyrir hendi. 15.Auk þess teljist úrskurður Landsréttar í máli nr. 117/2024, í máli Stangaveiðifélags Rangæinga gegn Skattinum, til nýrra gagna og upplýsinga í skilningi b-liðar 1. mgr. 191. gr. laga nr. 91/1991. Endurupptaka þess máls hafi leitt til þess að krafa um skipti á búi þess félags hafi verið afturkölluð og mál gegn því fellt niður. 16.Að lokum byggir endurupptökubeiðandi á því að skilyrði 1. mgr. 191. gr. laga nr. 91/1991 um að atvik mæli með því að leyfið verði veitt, þar á meðal að stórfelldir hagsmunir endurupptökubeiðanda séu í húfi, séu uppfyllt. Endurupptökubeiðandi telur að félagið hafi knýjandi hagsmuni af því að orðið verði við beiðni hans um endurupptöku málsins, enda sé félagið gjaldfært og skuldlaust með öllu. Verði ekki fallist á endurupptökubeiðnina muni það leiða til þess að allar eigur endurupptökubeiðanda verði afhentar ríkissjóði. Slík málsmeðferð samræmist ekki 70. gr. ENDURUPPTÖKUDÓMUR NR. 5/2024 - 4 - stjórnarskrárinnar og 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu og feli í sér ólögmæta eignaupptöku sem brjóti gegn 72. gr. stjórnarskrárinnar og 1. gr. samningsviðauka nr. 1 við sáttmálann. Engir hagsmunir annarra standi því í vegi að á endurupptökubeiðni verði fallist. Þvert á móti yrði markmiðum laga nr. 82/2019 náð með endurupptöku þar sem beiðanda gæfist tækifæri til að fullnægja skráningarskyldu sinni. Rökstuðningur gagnaðila 17.Frávísunarkröfu sína byggir gagnaðili á því að Endurupptökudómur hafi í fyrri úrskurðum sínum tekið fram að af 191. gr. laga nr. 91/1991 og ákvæðum 4. og 5. mgr. 192. gr. sömu laga verði ráðið að eingöngu sé lagaheimild til þess að endurupptaka dóma en ekki úrskurði, sbr. meðal annars úrskurði Endurupptökudóms í málum nr. 1/2021, 4/2021, 9/2021, 4/2023 og 4/2024. Í þessum málum hafi verið farið fram á endurupptöku úrskurða en Endurupptökudómur vísað málunum frá dómi án kröfu. Telur gagnaðili því að í samræmi við réttarframkvæmd Endurupptökudóms eigi að vísa málinu frá dómi. 18.Verði ekki fallist á frávísun málsins krefst gagnaðili þess til vara að kröfum endurupptökubeiðanda verði hafnað. Vísar hann þar um til ákvæða XXIII. kafla laga nr. 91/1991, sbr. a- og b-lið 191. gr. sömu laga. Telur hann að a-liður ákvæðisins eigi ekki við í máli endurupptökubeiðanda, enda verði gagnaðila ekki um það kennt að endurupptökubeiðandi hafi ekki skilað inn með réttum hætti gögnum og upplýsingum um raunverulegan eiganda. Endurupptökubeiðanda hafi verið í lófa lagið að óska endurupptöku á úrskurðinum innan mánaðar frá því að honum varð kunnugt um niðurstöðu Héraðsdóms Reykjavíkur. Gagnaðili hafi fyrst fengið afhent félagatal og upplýsingar um stjórn endurupptökubeiðanda 19. júní 2024, eða átta mánuðum eftir að endurupptökubeiðandi hafi fyrst verið upplýstur um niðurstöðu héraðsdóms. Því sé ekki um að ræða ný gögn sem ekki hefði verið unnt að skila til varnaraðila innan tímafrests samkvæmt 1. mgr. 137. gr. laga nr. 91/1991. 19.Gagnaðili telur úrskurð Endurupptökudóms í máli nr. 16/2021 ekki hafa fordæmisgildi í máli þessu, enda hafi þar verið um að ræða sakamál sem sé ekki sambærilegt. Um hafi verið að ræða dóm en ekki úrskurð eins og í þessu máli auk þess sem ákærði í því máli hafi fyrst verið upplýstur um dóminn þegar frestur samkvæmt 1. og 3. mgr. 187. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála hafi verið liðinn. 20.Hvað varðar skilyrði b-liðar 191. gr. laga nr. 91/1991 vísar gagnaðili til þess að úrskurður Endurupptökudóms í máli nr. 14/2022 fjalli ekki um sambærileg málsatvik og mál þetta. Þar hafi verið um að ræða stefnubirtingu sem endurupptökubeiðandi þess máls hafi ekki haft upplýsingar um og ekki getað haft þegar mál hans var til meðferðar hjá héraðsdómi. Gagnaðili telur að í niðurstöðu héraðsdóms í máli nr. I-7007/2023 hafi verið staðfest að birtingarháttur eins og sá sem viðhafður var gagnvart endurupptökubeiðanda sé lögmætur, en ekki hafi verið fjallað sérstaklega um birtinguna í úrskurði Landsréttar í máli nr. 117/2024. 21.Gagnaðili bendir sérstaklega á að í úrskurði Endurupptökudóms í máli nr. 14/2022 hafi dómurinn tekið fram að af orðalagi 191. gr. laga nr. 91/1991 og ákvæðum 4. og 5. mgr. 192. gr. sömu laga verði ráðið að eingöngu sé lagaheimild til að endurupptaka dóma en ekki úrskurði. Þetta leiði einnig af úrskurðum Endurupptökudóms í málum nr. 1/2021, 4/2021 og 9/2021. Mál nr. 14/2022 sé eðlisólíkt máli endurupptökubeiðanda þar sem í því máli hafi verið um að ræða áritaða stefnu en ekki úrskurð um slit á félagi. Ekki sé hægt að jafna úrskurði um slit félags á grundvelli laga nr. 82/2019 við héraðsdóm samkvæmt 191. gr. laga nr. 91/1991. Tilvitnaður úrskurður ENDURUPPTÖKUDÓMUR NR. 5/2024 - 5 - Landsréttar geti því ekki talist nýjar upplýsingar sem muni leiða til breyttrar niðurstöðu í mikilvægum atriðum hvað þetta mál varðar. 22.Það að endurupptökubeiðandi vilji halda uppi vörnum í málinu teljist ekki heldur slíkar nýjar upplýsingar að þær ættu að leiða til endurupptöku málsins í skilningi b-liðar 1. mgr. 191. gr. laga nr. 91/1991. 23.Þá vísar gagnaðili til þess að ekki sé uppfyllt það skilyrði 1. mgr. 191. gr. laga nr. 91/1991 að atvik mæli með því að endurupptaka verði heimiluð, þar á meðal að stórfelldir hagsmunir endurupptökubeiðanda séu í húfi. Ákvæði 72. gr. stjórnarskrárinnar og 1. gr. samningsviðauka nr. 1 við mannréttindasáttmála Evrópu sem og ákvæði stjórnarskrár og mannréttindasáttmála um réttláta málsmeðferð feli ekki í sér rétt til að fá úrskurð endurupptekinn í því skyni að uppfylla lagaskyldu um skráningu raunverulegs eiganda eftir á. Endurupptökubeiðandi hafi átt þess kost að óska eftir endurupptöku, sbr. 1. mgr. 137. gr. laga nr. 91/1991, en ekki nýtt þann rétt. Gagnaðili vísar einnig um þetta til athugasemda við frumvarp það sem síðar varð að lögum nr. 139/2022 sem lögfestu bráðabirgðaákvæði II og III við lög nr. 82/2019. Þar komi fram að löggjafinn hafi metið það svo að ákvæði frumvarpsins séu í samræmi við stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar sem Ísland hafi gengist undir. 24.Gagnaðili telur að með dómi Hæstaréttar 7. maí 2012 í máli nr. 234/2012 hafi verið staðfest að ákvæði 137. gr. laga nr. 91/1991 gildi um endurupptöku úrskurða um gjaldþrotaskipti. Sömu reglur gildi um endurupptöku úrskurða um slit á félagi samkvæmt lögum nr. 82/2019. 25.Gagnaðili telur leiða af dómum Hæstaréttar 17. ágúst 2012 í máli nr. 475/2012 og 20. nóvember 2012 í máli nr. 660/2012 sem og úrskurði Landsréttar í máli nr. 117/2024 að heimildir til endurupptöku undir þessum kringumstæðum geti aðeins farið fram innan þess tímafrests sem kveðið sé á um í 1. mgr. 137. gr. laga nr. 91/1991. Endurupptökubeiðandi þessa máls hafi ekki farið fram á endurupptöku innan þess tímafrests sem þar sé kveðið á um og því hafi niðurstöður í þeim málum ekki nein þau áhrif sem ættu að leiða til endurupptöku málsins. 26.Gagnaðili vísar til dóma Hæstaréttar 2. október 1996 í máli nr. 360/1996 og 16. ágúst 2006 í máli nr. 359/2006 þar sem byggt sé á því að enda þótt skilyrði samkvæmt endurupptökuheimildum laga nr. 91/1991 teldust út af fyrir sig uppfyllt ein og sér, hefði niðurstaða málanna ekki orðið önnur en raunin varð, þótt skuldari hefði sótt þing í málunum þegar þau voru fyrst tekin fyrir. Endurupptöku hafi því verið hafnað í báðum tilvikum. Andsvör endurupptökubeiðanda 27.Vegna málatilbúnaðar gagnaðila í þá veru að endurupptökubeiðanda hafi verið í lófa lagið að leggja fram beiðni um endurupptöku málsins innan mánaðar frá því honum var kunnugt um málsúrslit áréttar endurupptökubeiðandi að úrskurður héraðsdóms hafi ekki verið birtur honum eða kynntur innan þess frests. Þegar hann hafi frétt af úrskurðinum hafi hann strax sett sig í samband við gagnaðila og sýnt skýran vilja til að fullnægja skyldu til skráningar og óskað leiðbeininga stjórnvaldsins þar um. Gagnaðili hafi ekki upplýst endurupptökubeiðanda um möguleika hans á að fá dómsúrskurðinn endurskoðaðan eða bent á eyðublað til skráningar raunverulegra eigenda. Þvert á móti hafi gagnaðili skýrt endurupptökubeiðanda frá því að niðurstaðan væri endanleg og að engir möguleikar væru fyrir hendi á endurskoðun úrskurðarins. 28.Endurupptökubeiðandi vísar í andsvörum sínum til dóma Mannréttindadómstóls Evrópu í málum nr. 7942/05 og 24838/05, Dilipak og Karakaya gegn Tyrklandi, 1. mars 2006 í máli nr. ENDURUPPTÖKUDÓMUR NR. 5/2024 - 6 - 56581/00, Sejdovic gegn Ítalíu, og 12. febrúar 2015 í máli nr. 66408/12, Sanader gegn Króatíu. Vísar hann til þess að í fyrri tveimur dómunum hafi dómstóllinn staðfest að heimilt sé að binda réttarúrræði í kjölfar útivistardóms við tímafresti. Frestir verði þó að vera nægjanlega rúmir til að aðili hafi raunhæfa möguleika á að fá endurskoðun. Í því sambandi verði einnig að horfa til þess hvort aðilanum hafi verið kynnt þau réttarúrræði sem hafi verið tæk og um skamman frest til að neita þeirra. Í síðast greinda dóminum hafi dómstóllinn talið að réttur sakbornings sem þolað hefði útivistardóm væri ekki nægjanlega tryggður ef það væri gert að skilyrði endurupptöku að lögð væru fram ný gögn eða upplýsingar sem hefðu slíkt vægi að ætla mætti að niðurstaða málsins hefði orðið önnur ef þau hefðu legið fyrir undir rekstri málsins. 29.Endurupptökubeiðandi vísar til þess að hann byggi ekki á því að birting kvaðningar í Lögbirtingablaði hafi verið ólögmæt. Engu að síður sé ljóst að bæði gagnaðili og héraðsdómur hafi getað aflað upplýsinga um stjórn félagsins og netfang með einfaldri leit á vefnum og vakið athygli endurupptökubeiðanda á málinu. Það hafi ekki verið gert. Andsvör gagnaðila. 30.Gagnaðili vísar til þess að hann hafi leiðbeint endurupptökubeiðanda eftir bestu vitund á hverjum tíma og þeim síðarnefnda verið heimilt að leggja fram endurupptökubeiðni til héraðsdóms innan lögbundinna tímamarka. Ekkert hafi hindrað félagið í að gera það. 31.Þá vísar gagnaðili meðal annars til þess að dómar Mannréttindadómstóls Evrópu sem endurupptökubeiðandi vísar til séu sakamál á hendur einstaklingum sem séu þess eðlis að ekki sé hægt að jafna við málsmeðferð um slit á félagi. Um meðferð sakamála gildi aðrar og oft á tíðum strangari reglur en um meðferð einkamála. Hvað sem því líði séu tímafrestir þeir sem settir séu endurupptöku í íslenskum lögum nægjanlega langir til að raunhæfur möguleiki sé til þess að fá mál endurupptekin. Niðurstaða 32.Í 1. mgr. 191. gr. laga nr. 91/1991 segir að hafi héraðsdómur gengið í máli, sem hefur ekki verið áfrýjað, og áfrýjunarfrestur er liðinn, geti Endurupptökudómur orðið við beiðni um að málið verði endurupptekið í héraði ef skilyrði a- eða b-liðar er fullnægt, enda mæli atvik með því að leyfið verði veitt, þar á meðal að stórfelldir hagsmunir aðilans séu í húfi. 33.Framangreint ákvæði 1. mgr. 191. gr. laga nr. 91/1991 gerir samkvæmt orðanna hljóðan aðeins ráð fyrir endurupptöku máls hafi dómur verið kveðinn upp í því. Á hinn bóginn er hvergi vikið að heimild til að endurupptaka úrskurði héraðsdóms. Í 4. og 5. mgr. 192. gr. er jafnframt áréttað að úrskurður Endurupptökudóms skuli fjalla um dóm, sem beiðst er endurupptöku á, og að tekin skuli afstaða til þess hvort áhrif fyrri dóms falli niður á meðan málið er rekið. 34.Endurupptökudómur hefur í fyrri úrskurðum sínum tekið fram að af 191. gr. og 4. og 5. mgr. 192. gr. laga nr. 91/1991 verði ráðið að eingöngu sé lagaheimild til að endurupptaka dóma og áritaðar stefnur en ekki úrskurði. Vísast um það meðal annars til úrskurða Endurupptökudóms í málum nr. 1/2021, 4/2021, 9/2021, 17/2021, 28/2021, 14/2022, 4/2023 og 4/2024. Í þessum málum er ítarlega fjallað um forsögu lagaákvæða um endurupptöku mála sem hefur verið að finna í íslenskum lögum allt frá setningu laga nr. 22/1919 um hæstarjett. Þá er í þessum úrskurðum fjallað um rök fyrir takmörkuninni og hvers vegna úrskurðir falli ekki undir tilvitnaðar heimildir ákvæða 191. gr., sbr. 192 gr., laga nr. 91/1991. Er meðal annars tekið fram í fyrrgreindum úrskurðum að eðli máls samkvæmt verði við skýringu lagareglna um endurupptöku dæmdra mála orðum lagatextans ENDURUPPTÖKUDÓMUR NR. 5/2024 - 7 - ekki léð rýmri merking en felst í bókstaflegum skilningi hans, sbr. dóm Hæstaréttar 21. maí 2019 í máli nr. 12/2018. 35.Endurupptökubeiðandi byggir á því að Endurupptökudómur hafi ekki áður leyst úr því hvort í lögum sé að finna heimild til endurupptöku úrskurðar héraðsdóms sem gengið hefur um skipti félags á grundvelli 6-8. mgr. 7. gr. laga nr. 82/2019. Endurupptökubeiðandi byggir á því að slíka heimild leiði af samanburðarskýringu á ákvæðum 6. mgr. 17. gr. laga nr. 82/2019, sbr. 2. mgr. 178. gr. og 3. mgr. 176. gr. laga nr. 21/1991, 5. mgr. 137. gr. og 191. gr. laga nr. 91/1991. Endurupptökudómi sé því unnt að leysa efnislega úr því hvort skilyrði séu til endurupptöku þess máls er beiðni hans lýtur að. 36.Eins og fram kemur í úrskurði Landsréttar í máli nr. 117/2024 hefur bráðabirgðaákvæði II við lög nr. 82/2019 ekki að geyma sérstaka heimild til endurupptöku máls sem lokið hefur með úrskurði um skipti félags á grundvelli ákvæðisins. Jafnvel þó að dómaframkvæmd hafi verið á þá leið að almennt séð sé mögulegt að óska endurupptöku á úrskurðum um gjaldþrotaskipti á grundvelli almennra heimilda XXIII. kafla laga nr. 91/1991 fær sú framkvæmd út af fyrir sig ekki breytt skýrri framkvæmd Endurupptökudóms við túlkun 191. gr. sömu laga. 37.Valdsvið Endurupptökudóms hvað einkamál varðar nær einvörðungu til þess að taka afstöðu til þess hvort skilyrði XXVIII. kafla laga nr. 91/1991 standi til þess að endurupptaka megi dóma. Eins og ítrekað hefur verið tekið fram í úrskurðum Endurupptökudóms felur endurupptaka mála í sér undantekningu frá meginreglunni um bindandi áhrif dómsúrlausna. Meðal annars í ljósi þess er ekki hægt að fallast á að samanburðarskýring á ákvæðum 6. mgr. 17. gr. laga nr. 82/2019, sbr. 2. mgr. 178. gr. og 3. mgr. 176. gr. laga nr. 21/1991, 5. mgr. 137. gr. og 191. gr. laga nr. 91/1991 leiði til þess að Endurupptökudómur hafi heimild til að fallast á endurupptöku máls sem lokið hefur með úrskurði um töku bús skráningarskylds aðila til skipta, þar sem útivist hefur orðið. Dómar Hæstaréttar í málum nr. 475/2012 og 660/2012 og úrskurður Landsréttar í máli nr. 117/2024 staðfesta aðeins heimildir til endurupptöku innan þess tímafrests sem kveðið er á um í 1. mgr. 137. gr. laga nr. 91/1991 en svo hagaði ekki til í máli endurupptökubeiðanda. 38.Þá verður að hafna þeirri málsástæðu endurupptökubeiðanda að aðstæðum megi jafna til þeirrar stöðu sem uppi er varðandi heimild til endurupptöku í tilviki áritaðrar stefnu, sbr. úrskurð Endurupptökudóms í máli nr. 14/2022. Er í þeim efnum til þess að líta að samkvæmt 2. mgr. 113. gr. laga nr. 91/1991 hefur áritun dómara á stefnu sama gildi og dómur. 39.Enn fremur verður ekki fallist á að úrskurður Endurupptökudóms í máli nr. 16/2021 geti haft þýðingu fyrir úrlausn þessa máls, enda var þar um að ræða efnisdóm í sakamáli auk þess sem ákærði var fyrst upplýstur um dóminn þegar frestur samkvæmt 1. og 3. mgr. 187. gr. laga nr. 88/2008 var liðinn. 40.Endurupptökubeiðandi heldur því fram að þeir lögbundnu tímafrestir um endurupptöku sem til umfjöllunar eru í málinu samræmist ekki 70. gr. stjórnarskrár og 1. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Endurupptökubeiðandi vísar um þetta til áðurnefndra dóma Mannréttindadómstóls Evrópu. Árétta ber að valdsvið Endurupptökudóms nær einvörðungu til þess að taka afstöðu til þess hvort gildandi skilyrði laga standi til þess að endurupptaka megi dóma. Þannig hefur, svo sem fyrr segir, ítrekað komið fram í úrskurðum Endurupptökudóms að heimildir XXVIII. kafla laga nr. 91/1991 til endurupptöku einkamála nái aðeins til dóma en ekki úrskurða dómstóla. Að því virtu og hvað sem líður fyrirmælum 70. gr. stjórnarskrár og 1. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, er það ekki á færi Endurupptökudóms að heimila endurupptöku úrskurðar Héraðsdóms Reykjavíkur í máli nr. G- ENDURUPPTÖKUDÓMUR NR. 5/2024 - 8 - 2543/2023 meðan ekki er að finna heimild þar um í lögum. Fá fyrirmæli 72. gr. stjórnarskrárinnar og 1. gr. samningsviðauka nr. 1 við mannréttindasáttmála Evrópu ekki heldur breytt þeirri niðurstöðu. 41.Af öllu framangreindu leiðir að í gildandi lögum er ekki að finna heimild til endurupptöku úrskurðar svo sem endurupptökubeiðandi hefur farið fram á í máli þessu og verður því að vísa málinu frá Endurupptökudómi. 42.Báðir aðilar hafa gert kröfu um málskostnað úr hendi hins. Með hliðsjón af öllum aðstæðum þykir rétt að málskostnaður milli aðila falli niður. Úrskurðarorð: Máli þessu er vísað frá Endurupptökudómi. Málskostnaður fellur niður.